Gerðarsafn

Ráðgjafanefnd Gerðasafns harmar þá stöðu sem komin er upp í Listasafni Kópavogs – Gerðarsafni

14. september 2020

Lista og menningarráð Kópavogs:

Karen E. Halldórsdóttir, formaður
Auður Cela Sigrúnardóttir
Guðmundur Gísli Geirdal
Margrét Vilborg Tryggvadóttir
Páll Marís Pálsson
Vigdís Ásgeirsdóttir

Ágæta Lista- og menningarráð Kópavogs

Ráðgjafanefnd Gerðasafns harmar þá stöðu sem komin er upp í Listasafni Kópavogs – Gerðarsafni við fráhvarf safnstjórans Jónu Hlífar Halldórsdóttur. Jafnframt styður ráðið þá ákvörðun safnstjóra að segja upp störfum. 

Jóna Hlíf hefur sinnt starfi sínu af mikilli álúð, fagmennsku og framsýni. Frá fyrsta degi hefur hún haft hag myndlistarinnar að leiðarljósi, hag listamanna og hag Gerðarsafns sem menningarstofnunar. Jóna Hlíf hefur lagt vinnu og hugkvæmni í að byggja upp barna- og fjölskyldustarf til að opna safnið og heim myndlistarinnar fyrir almenningi. Sýningarhald síðustu ára hefur verið sérlega öflugt, framsækið og mikilvægt fyrir myndlistina í landinu.

Þrátt fyrir þetta kraftmikla starf hefur safnstjórinn orðið fyrir gegndarlausum árásum, einelti og undirferli í samvinnu sinni við yfirmenn sína hjá Kópavogsbæ sem hafa hamlað framförum og þróun. Fyrirrennari safnstjóra sagði einnig starfi sínu lausu eftir stutta setu í starfi vegna samskonar samstarfsörðugleika. Báðir voru safnstjórarnir valdir úr stórum hópi umsækjenda og óumdeildir fagmenn innan fagsviðs myndlistar.

Ráðgjafanefndin hefur áhyggjur af hver framtíð Listasafns Kópavogs – Gerðarsafn verður þegar faglegur metnaður er ekki látinn ráða í starfi safnsins.

Í ljósi ofanritaðs sjáum við undirrituð okkur ekki lengur fært að sitja í ráðgjafanefnd safnsins og segjum okkur hér með úr nefndinni.

Virðingarfyllst,

Ráðgjafanefnd Listasafns Kópavogs – Gerðarsafn: Björg Stefánsdóttir, sérfræðingur í menningarmálum 
Jón B. K. Ransu, myndlistarmaður og deildarstjóri við listmálarabraut Myndlistaskólans í Reykjavík
Ólöf Nordal, myndlistarmaður og prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com