Prýði / Adorn – Opnun á fimmtudag kl. 18:00 í Nýlistasafninu

f89ee938-fc5b-46ac-b044-503865137bbc
Nýlistasafnið býður ykkur hjartanlega velkomin á sýninguna Prýði / Adorn í sýningarstjórn og umsjón Becky Forsythe, fimmtudaginn 14. maí frá klukkan 18:00 – 20:00.

PRÝÐI, á ensku ADORN er önnur sýningin í sýningaröðinni Konur í Nýló þar sem að stjórn safnsins hefur lagt áherslu á hlut kvenna í listasögunni. Listakonur sem eiga verk á sýningunni eru Anna Líndal, Erla Silfá Þorgrímsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Svala Sigurleifsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. 

,,Þegar við prýðum í hefðbundnum skilningi orðsins, skreytum við einstakling eða hlut til fegrunar og áhersluauka. Verkin hér á sýningunni eiga það sameiginlegt að hverfast um orðið prýði. En ekki þannig að líta ætti á þau sem skraut eða að tilgangur þeirra sé að vera einhvers konar glingur. Í hverju verki á sýningunni má finna eiginleika prýðis sem tekur á spurningum um fegurð í samhengi hversdagsleikans. Listamennirnir á sýningunni, sem allar eru konur, hafa unnið með hversdaginn á þann hátt að við, áhorfendurnir, getum ekki annað en litið í eigin barm og velt fyrir okkur eigin hugmyndum um kvenhlutverkið og fegurð, en einnig til sögunnar og ímynd konunnar innan heimilisins. Verkin á sýningunni færa okkur því aftur í tímann en minna okkur jafnframt á að enn eimir af því sem áður var.”

Becky Forsythe býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist með BFA í myndlist frá York Háskólanum í Torontó, lauk meistaranámi í efnismenningu frá háskólanum í Manitoba og hefur Diplómaskírteini frá Georgian College í safnafræði með áherslu á samtímamyndlist. Becky hóf störf í Nýlistasafninu í janúar 2015 og situr í varastjórn safnsins. Hún er einn af stofnendum listamanna-og sýningastjórahópsins publicarchives, sem er samstarf milli Íslands og Kanada. Í verkefnum sínum rannsakar Becky þróun merkingar og þekkingar gegnum mismunandi áherslur á hugtökum og aðferðum innan safnafræði og heimildarsafna.
Sýningin stendur til loka ágúst 2015 og er í safneignarrými Nýló að Völvufelli 13-21, Breiðholti.
 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com