Pikslaverk hátíð í Kling og bang 22 maí
Pikslaverk hátíðin verður sett með opnun sýningar í galleríi Kling og bang föstudaginn 22 maí kl. 17. Pikslaverk er raflistahátíð sem að þessu sinni er helguð listum og vísindum Á opnun hátíðarinnar flytur Anna Fríða Jónsdóttir gjörning ásamt Haraldi Ægi Guðmundssyni bassaleikari byggðan á gögnum um jarðskjálfta í Bárðarbungu. Aðrir listamenn sem eiga verk á sýningu hátíðarinnar eru Raitis Smits, Ragnar Már Nikulásson, Olga Kisseleva, Gisle Frøysland, Maite Carajaville og Katla Rós. Einnig verða sýndar ljósmyndir af jöklum eftir Hrafnhildi Hannesdóttur og Snævarr Guðmundsson jarðfræðinga, Frederick Howell, Jack Ives, Ólaf Magnússon, Helga Arason, Ingólf Ísólfsson, Tretow Loof og danska landmælingarmenn.
Pikslaverk hátíðin er haldin í tengslum við vinnustofuna Melting on Ice sem stóð yfir í Reykjavík dagana 19 – 21 maí. Vinnustofan og hátíðin eru hluti af samvinnuverkefninu NORTH Creative Network – for open innovation and cultural exchange sem hlotið hefur EEA styrk.
Samstarfaðilar í NORTH Creative Network eru Lorna, félag áhugamanna um rafræna list sem stendur fyrir Pikslaverk hátíðinni, Rixc frá Riga í Lettalandi og Piksel frá Bergen og i/o/lab frá Stavanger í Noregi.
Pikslaverk hátíðin er haldin í samvinnu við Raflost hátíðina og vinnustofuna Raflosti í Listaháskóla Íslands.
Skipuleggjandi er Margrét Elísabet Ólafsdóttir.
Aðstoðarmaður Ragnar Már Nikulásson.