Dog1

Óþokkar fremja fimmtu aðgerð sína – Hundur borðar hund í Ekkisens 18. ágúst

Óþokkarnir eru tvíeyki sem hefur unnið að því að vekja upp kraft svo að sköpunin fái að rísa úr rústum þeirrar heimsmyndar sem okkar samfélag hefur fest sig í. Undanfarið ár hafa þeir komið víða að, unnið stál í stál og lýst var formlega yfir neyðarástandi sem þeir hafa barist við að finna lausnir á. Ætlunarverk þeirra hefur nú birst í fjórum aðgerðum. Sú fimmta verður framin í húskynnum Ekkisens föstudaginn þann 18. ágúst á Bergstaðarstræti 25b. Í síðustu aðgerð hafa óþokkarnir laðað að sér verur úr hinum ómótaða heimi. Hundur borðar hund tekst á við það að skilgreina og skilja það sem hundarnir eru að reyna að segja.

Sýningin verður opin 18.ágúst – 10.september 2017.

Um listamennina:

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir (f. 1991) útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015. Seinastliðin ár hefur hún komið að ýmsum sýningum og ritstýrt tímaritinu Listvísi – Málgagn um myndlist. Verk hennar birtast í margvíslegum miðlum; Ljósmyndum, texta, myndbandi, teikningum, skúlptúr og blandaðri tækni. Ætlun hennar er að kanna tilvist trúarinnar er hún íhugar stöðu dreymandans í heimi röksemda. Hún fæst við hið dulræna í hugmyndum sem og í efniviði; íhugar athöfnina og reynir að vekja galdur ljóðrænunnar í hversdagsleikanum.

Anton Logi Ólafsson (f. 1991) útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2015. Viðmið Antons Loga í myndlistinni hefur ávalt verið að vinna í sem flestum miðlum, að festa sig ekki niður í einum né neinum fasa. Það sama á við aðdraganda og hugmyndavinnu verka hans, þau skoða margvíslega hluti og spekúleringar. Leyndardómar alheimsins, pólitísk eyðileggingarvöld, skilgreiningar „sjálfsins“, töfrar, typpabrandarar og fleira – allt góð og gild viðfangsefni í bókum listamannsins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com