óteljandi Andlit Iðunnar

Ótal andlit Iðunnar: María Kjartans og Harpa Rún

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi

Sýningaropnun: 26. maí kl. 17
26.05 – 27.08 2017

Myndlistarkonurnar María Kjartans og Harpa Rún Ólafsdóttir útskrifuðust af myndlistarbraut LHÍ árið 2005. Þær eiga hvor um sig langan feril að baki í myndlistinni bæði hérlendis og erlendis en vinna nú saman í fyrsta sinn. Þær hófu samstarf í blönduðum miðli árið 2016 þar sem María fangar orku náttúrunnar í ljósmyndinni og Harpa Rún dregur hana svo fram myndrænt með málningu og blek að vopni.

Sameiginlegur flötur listakvennanna liggur í leit þeirra að fanga hið óþekkta á mörkum raunveruleikans og endurskapa á tvívíðum fleti. Tilgangur samstarfsins er að draga myndrænt fram þá orku sem leynist í náttúrunni og beina í leiðinni athyglinni að hinu viðkvæma og oft óþekkta sem leynist allt í kring um okkur. Verkefnið ber heitið Ótal andlit Iðunnar sem lýsir þeim öflum sem þær leitast við að beisla á myndfletinum. Með því að sjóða saman draumkenndar ljósmyndir Maríu af fólki og náttúru og súrrealískar teikningar Hörpu Rúnar tekst þeim að skapa áður óþekkta veröld innan þeirrar veraldar sem blasir við okkur í hversdagsleikanum. Verkin kallast skemmtilega á við þjóðsögur og ævintýri og hvetja áhorfandann til að upplifa umhverfi sitt á nýjan hátt.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com