Continuum 2013 16

Opnun: Hulið landslag í Gerðubergi 20. maí

Opnun á sýningu Soffíu Sæmundardóttur, Huldu landslagi, í Borgarbókasafninu Gerðubergi
20. maí – 27. ágúst

Laugardaginn 20. maí kl. 14 opnar á Borgarbókasafninu í Gerðubergi sýning á grafíkverkum og teikningum Soffíu Sæmundsdóttur sem ber yfirskriftina Hulið landslag. Verkin á sýningunni vísa í dulúð landslagsins og eru gjarnan á mörkum hins ímyndaða og jarðneska heims.

Listakonan segir að þótt hún horfi til himins, fjalla eða út í hinn óendanlega sjóndeildarhring verði niðurstaðan aldrei annað en það sem birtist á pappírnum. Fyrirmyndin sé ekki ákveðin að fullu en með því að vinna verk sín með blýanti, kolum, bleki eða vatnslitum verði til verk sem með framsetningu sinn feli í sér áframhald og sögulega skírskotun. Verkin einkennast jafnframt af einhverjum óendanleika og tilraunakenndri leit þar sem landslag, sagan og náttúran veita listakonunni innblástur.

Soffía hefur verið virk á myndlistarvettvangi frá útskrift úr grafíkdeild MHÍ 1991. Hún hefur staðið fyrir ótal sýningum, tekið þátt í samsýningum, rekið vinnustofu og kennt myndlist um árabil. Hún hefur auk þess tekið þátt í félagsstörfum myndlistarmanna og lokið meistaragráðu í málun í Kaliforníu 2001-3 og kennsluréttindum frá LHÍ 2010. Verk hennar bera sterk höfundareinkenni, vísa í óræða sögu með ákveðnum sögupersónum en í teikningum og grafíkverkum dregur hún upp landslag og vill með því kanna óþekkta staði. Á sýningunni eru teikningar, grafíkverk og smáverk. Verkin eru unnin á Íslandi, Þýskalandi og í Bandaríkjunum á undanförnum árum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com