Vinnustofumynd á Plakat Og Sýnskrá1

Opnun sýningarinnar NÝ VERK í Gallerí Gróttu, Eiðistorgi fimmtudaginn 23. janúar kl. 17

Hjartanlega velkomin(n) á opnun sýningarinnar NÝ VERK fimmtudaginn 23. janúar kl. 17.00

Steingrímur Gauti Ingólfsson er fæddur í Reykjavík 1986. Hann útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur verið virkur í sýningarhaldi síðustu ár, en þetta er níunda einkasýning hans. Steingrímur er í samstarfi við Tvo Hrafna Listhús.

„Ef við hugsum um þetta sem eða eins og færni eða tungumál. Þá er Steingrímur Gauti reiprennandi, fullfær. En það er ekki endilega, alltaf, það sem málari vill. Né má það vera endanlegur endapunktur. Hvað gerir maður þegar eitthvað sem var erfitt er orðið auðvelt? Leyfir maður því að vera auðvelt, eða reynir maður að gera það erfitt aftur? Að nota vinstri, hafa pensilinn lengri, styttri, óþjálli, ekki kveikja ljósin á vinnustofunni, strekkja strigann skakkt? Hvað gerir maður eftir uppljómunina?

Því dagurinn er á endanum mikið eins fyrir og eftir, erfiður og auðveldur, það breytist allt og ekkert. Þó eru málverkin í dag ekki þau sömu og þau sem komu áður. En þau breytast kannski meira innan á heldur en utan á. Þá hefur þetta kannski eitthvað við okkar merkingu á þessum orðum að gera: erfitt, auðvelt. Það þarf að varast að kalla það sem er auðvelt náttúrulegt, eða örlög, það sem ég, þú, við, áttum alltaf að vera að gera. Simpansar, ef þeir læra ekki í æsku, frá móður sinni, návist trjáa, frá samöldrum, að klifra að læra með fót- og handaputtum hversu þykkar greinarnar þurfa að vera til að bera þyngd þeirra, hverskonar línu maður á að taka upp eða í gegnum tré — þá læra þeir ekki að klifra. Þeir detta úr trénu, fara út á greinar sem brotna undan þeim, vilja minna við tré að gera, hugsanlega fara að gera eitthvað annað. Örlögin eru þannig flókin. En það er satt að eftir að maður finnur þessa þyngd, áþreifanleikann, hvað ber mann uppi og hvað ekki, þá má hugsanlega líka byrja á einhverju.

Ef við segjum þetta um þessi verk þá getum við sagt líka að þau gefi okkur nokkra valmöguleika. Þau eru mismunandi, en kannski af sama eðli, skyld. Það er mikið á strigunum. Stundum mikið sem lítur út eins og lítið, og lítið eins og mikið. Auðvelt eins og erfitt og öfugt. En þá er það kannski ekki lína sem er þarna á milli.“

Starkaður Sigurðarson

Steingrímur Gauti Ingólfsson

Velkomin(n) á sýninguna NÝ VERK í Gallerí Gróttu, sýningarsal á Bókasafni Seltjarnarness 2. hæð á Eiðistorgi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com