Gallgrótta

Opnun sýningarinnar FJARSTJÖRNUR OG FYLGIHNETTIR í Gallerí Gróttu

Hjartanlega velkomin(n) á opnun sýningarinnar FJARSTÖRNUR OG FYLGIHNETTIR fimmtudaginn 28. nóvember kl. 17.00

Innblástur sýningar Katrínar í Gallerí Gróttu er fenginn úr gömlum kvikmyndabæklingum alþjóðlegra kvikmynda frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Bæklingarnir voru keyptir á flóamarkaði í Berlín sumarið 2018 og fluttir í vistarverur listakonunnar í austurhluta borgarinnar. Þar lágu þeir afskiptir í breiðri gluggakistu þar til sólin glóði á þá eitt sumarheitt síðdegið þegar gluggar voru opnir upp á gátt og lífið við Neue Bahnhofstrasse var óðum að breytast í þann suðupott menningar sem hvergi finnst annars staðar en í Berlín.

Katrín Matthíasdóttir útskrifaðist frá Ludwig-Maximilian háskólanum í München árið 1998 með M.A. gráðu í þýsku sem aðalfag og norræn fræði og heimsspeki sem aukafög. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á myndlist en hóf ekki að mennta sig í listinni fyrr en eftir að heim var komið frá Þýskalandi. Katrín sótti ýmis námskeið í olíumálningu við Myndlistarskólann í Kópavogi á árunum 2007-2010 og hefur haldið einkasýningar m.a. í Gallerí Fold 2018, Norræna húsinu 2017, Gerðubergi 2015 og tekið þátt í ýmsum samsýningum hér heima en einnig erlendis m.a. INTERBIFEP í Bosníu og Hersegóvínu 2015 og í Fredriksborgarhöll í Danmörku. Hún hlaut verðlaun í samnorrænu portrettkeppninni „Portræt Nu“ árið 2011. Katrín hefur einnig myndskreytt tvær barnabækur, „Húsið á heimsenda“ og „Ævintýrið um litla Dag“. 

Katrín telst fígúrutífur listamaður á listamannsrófinu en hefur þó reynt sig við ýmsar listaðferðir. Verk hennar hafa oft samfélagslega og pólitíska skírskotun, þar sem loftslagsbreytingar og misskipting auðs og gæða eru áberandi en einnig ranglæti í tilvistarlegu samhengi við eigin vegferð í gegnum lífið.

Katrín Matthíasdóttir

Velkomin(n) á sýninguna Fjarstjörnur og fylgihnettir í Gallerí Gróttu, sýningarsal á Bókasafni Seltjarnarness 2. hæð á Eiðistorgi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com