Image002

Opnun sýningar Jóns B. K.Ransu í Hallgrímskirkju- HILMA STÚDÍUR: SVANIR- sunnudag kl. 12.15

Hilma stúdíur: Svanir 

Listsýning Jóns B. K. Ransu, Hilma stúdíur: Svanir, verður opnuð næstkomandi sunnudag, þann 26. febrúar, kl. 12:15 í Hallgrímskirkju.

Sýningin er í forkirkjunni og verður opnunin við messulok. Léttar veitingar verða í boði Hallgrímssafnaðar og allir hjartanlega velkomnir.

Jón B. K. Ransu hefur rýnt í verk sænsku listakonunnar Hilmu af Klint (1862-1944) og heimfært tilraunir hennar yfir í eigið myndmál, en Hilma einbeitti sér að túlkun og myndgervingu á samruna tveggja heima stóran hluta listferils síns.

Hilma af Klint var meðal fyrstu abstraktlistamanna Evrópu þótt verk hennar hafi ekki komið fyrir sjónir almennings fyrr en árið 1986. Hilma var undir miklum áhrifum frá esóterisma og dulvísindum og sagði að málverk sín væru skilaboð frá annarri vídd. Hún túlkaði sýnir og hugmyndir sínar um tengsl efnis og anda í málverkum sínum. Hilma vann ætíð í myndaröðum og sýnir ein þeirra umbreytingarferli svana frá hlutbundinni til óhlutbundinnar táknmyndar.

Sýning Jóns B. K. Ransu, Hilma stúdíur: Svanir, er óður til þessara verka Hilmu af Klint og tilraun til að horfa í verk listakonu sem gat túlkað tvo heima í senn.

Jón B. K. Ransu lauk myndlistarnámi frá Hollandi árið 1995 og hefur starfað sem myndlistarmaður, kennari, gagnrýnandi og sýningarstjóri síðan. Hann er nú deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík.

Sýningin er haldin á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju á 35. starfsári þess og stendur til 14. maí 2017. Opið 9-17 alla daga og allir velkomnir.

Jón B. K. Ransu er myndlistarmaður menntaður í Hollandi á árunum 1990-1995. Þar af var hann í skiptinámi við NCAD (National College of Art and Design) í Dublín í eina aönn. Þá tók Ransu þátt í ISCP (International Studio and Curatorial Program) í New York árið 2006 og hlaut þá styrk úr sjóði The Krasner Pollock Foundation.Málverk Ransu byggja öllu jafnan á endurskoðun listaverka eða liststefna sem skráð hafa verið í alþjóðlega listasögu. Í fimmta bindi íslenskrar listasögu sem gefin var út árið 2011 ritar gunnar Kvaran um listamanninn: „Ransu hefur unnið margvíslegar tilraunir sem tengjast meðal annars eignarnámsmálverki og skynjun áhorfandans. […] En þó sé um að ræða eignarnám er listamaðurinn aldrei ragur við að endurvinna viðkomandi tilvísanir til eigin listsköpunar með því að breyta efni, formi eða samhengi sem hefur í auknum mæli tekið á sig svið ný-módernismans, sér í lagi op-listarinnar, þar sem hann setur saman form og liti sem framkalla skynjunarröskun hjá áhorfendum“ (Gunnar Kvaran, Íslensk listasaga: Frá síðari hluta 19.aldar til upphafs 21. aldar. Nýtt Málverk, gjörningar og innsetningar, Forlagið og Listasafn Íslands, 2011, bls. 85).

Ransu starfaði sem myndlistargagnrýnandi hjá Morgunblaðinu frá 2002  2010. Hann er höfundur tveggja bóka um myndlist; Listgildi samtímans: Handbók um samtímalist á Íslandi árið 2012 og Málverkið sem slapp út úr rammanumárið 2014. Bækurnar hafa verið notaðar í kennslu í Listaháskóla Íslands, Myndlistaskólanum í reykjavík og hjá nokkrum framhaldsskólum á Íslandi. Þá var hann meðhöfundur að bókunum Valtýr Pétursson sem Listasafn Íslands gaf út árið 2016 og Gerður: Meistari málms og glerssem Listasafn Kópavogs gaf út árið 2010. Þar að auki hefur hann skrifað í fjölda sýningarskráa og fagtímarita um myndlist á Íslandi og erlendis.
Síðan árið 2005 hefur Ransu tekið að sér allnokkur verkefni sem sýningarstjóri og hefur meðal annars skipulagt sýningar fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Nýlistasafnið. Hann er einn af sýningarstjórum tvíæringsins Momentum 9: Alienation sem opnar í Moss í Noregi í júní næstkomandi. Momentum tvíæringurinn er einhver stærsta sýning á samtímamyndist sem fyrirfinnst á Norðurlöndunum.
Þá er Ransu menntaður í kennslufræðum og var stundakennari við í Listaháskóla Íslands frá árunum 2002  2016, þar sem hann kenndi bæði verklega og fræðilega áfanga á BA stigi og MA stigi. Hann er nú deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com