Opnun sýningar Hörpu Björnsdóttur í Iðnó og Gallerí Gesti 27. ágúst.

DSC00376[1]

„Plánetur“ myndlistarsýning Hörpu Björnsdóttur verður opnuð í menningarhúsinu Iðnó og Gallerí Gesti 27. ágúst. Sýningin í Iðnó stendur til 22. september. og er opin virka daga frá kl. 12 til 16 og um helgar frá kl. 13 til 17. Harpa sýnir í Iðnó ljósmyndaröð sem hefur verið í vinnslu og þróun síðastliðin sex ár. Meginuppistaða verkanna er skrásetning sjálfstæðrar sköpunar lífsins. Birtingamyndin er óvænt litadýrð og safarík fegurð sem minnir á framandi plánetur. Myndirnar fjalla um fegurðina í því sem við tökum oft ekki eftir, litadýrð hins hversdagslegasta og jafnvel hins auvirðilegasta, sem getur verið okkur jafn fjarlægt og óþekkt og himintunglin. Harpa hefur í gegnum tíðina unnið í margvíslegan efnivið; vatnsliti, málverk, grafík, skúlptúr, videó og ljósmyndir, og haft að leiðarljósi að velja það efni sem hentar inntaki verksins hverju sinni. Hún lauk prófi frá Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1976 og stundaði framahaldsnám við Den Frie Kunstskole í Kaupmannahöfn og listaháskólann í Dublin. Harpa hefur starfað ötullega að myndlist frá árinu 1981, haldið yfir 30 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Verk hennar eru í eigu helstu listasafna hérlendis. Hún kallar sig gjarnan „menningarplóg“ og vísar þá til þess að í gegnum árin hafi hún tekið að sér mörg ólík verkefni og verið virkur þátttakandi í íslensku menningar- og myndlistarlífi, m.a. sem framkvæmdastjóri Listahátíðar 1999-2000 og verkefnisstjóri Menningarnætur í Reykjavík 1997 og 1998. Menningarhúsið Iðnó við Tjörnina þarf ekki að kynna, en Gallerí Gestur er taska sem Dr. Magnús Gestsson hefur með sér og opnar hvar sem hann drepur niður fæti. Á sýningartímabilinu verður Gallerí Gestur í Iðnó á sunnudögum milli kl. 15 og 17.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com