Elsa Listaverk

Opnun sýningar Elsu Nielsen í Gallerí Gróttu 23.08.

Hjartanlega velkomin(n) á opnun sýningar Elsu Nielsen – DÍLAR – fimmtudaginn 23. ágúst kl. 17.00 í Gallerí Gróttu, Seltjarnarnesi.

Díll, depill eða pixill (eða tvívíð myndeind) er minnsta eining í stafrænni mynd og er alltaf einlit. Á þessari sýningu leikur Elsa sér við díla sem viðfangsefni og má með sanni segja að útkoman í samsetningu þeirra kemur skemmtilega á óvart.

Elsa Nielsen er fædd í Reykjavík árið 1974. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 1999 og rekur nú sína eigin hönnunarstofu. Strax á námsárum sínum fór Elsa að sýna verk sín og á nú að baki fjölda sam- og einkasýninga á sviði málaralistar. Elsa var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2016.

Á sviði málaralistarinnar hefur Elsa einkum einbeitt sér að því að mála uppstækkaðan grafískan myndflöt á striga með akrýllitum. Verkunum ljær hún dýpt með því að byggja flötinn upp með sparsli og sandi. Þó málverk Elsu standi sjálfstæð sýna þau glöggt hvernig henni tekst að færa margra ára reynslu og kunnáttu með grafíska miðlun yfir á annað stig.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com