Berg Contemporary

Opnun Styrmis Arnar Guðmundssonar í BERG Contemporary á föstudag, 13.september, kl.17

Verið velkomin á opnun í BERG Contemporary á föstudag kl.17, með nýjum og áður ósýndum verkum eftir Styrmi Örn Guðmundsson. Ber sýningin heitið Þrettándi mánuðurinn.

Í smásögu Ray Bradbury frá árinu 1952, Þrumuhljóð, er söguárið 2055 og
tímaflakk er orðið að raunveruleika. Þegar Eckels, vellauðugur ævintýramaður í leit að risaeðlunni Tyrannosaurus Rex, stígur fæti inn í tímavél fyrirtækisins Tímasafarí hf. varar leiðsögumaður tímaferðalagsins hann við og segir; ,,Við viljum ekki breyta framtíðinni. Við eigum ekki heima í fortíðinni. (…) Tímavél er vandmeðfarið fyrirbæri. Án þess að verða þess vör, gætum við tekið af lífi mikilvægt dýr, smágerðan fugl, kakkalakka, jafnvel blóm, og þar af leiðandi eyðilagt mikilvægan hlekk í uppvexti heillar tegundar.” Og hann heldur áfram: ,,Að traðka á ákveðnum plöntum gæti velt þungu hlassi. Smávægileg mistök gætu margfaldast á sextíu milljón árum, upp úr öllu valdi.” Ferðalagið (varúð, söguspillir!) fer ekki líkt og ætlað var og þegar þeir snúa til baka hefur veröldin öll breyst, árið 2055 er kunnuglegt en breytt á undarlegan hátt. Forviða, tekur Eckels eftir því fyrir tilviljun að hann hefur gengið um með kramið fiðrildi úr fortíðinni á skósólanum…

Hundrað og fimmtíu árum áður, hafði þýski heimspekingurinn Johann Gottlieb Fichte farið með svipað mál: ,,Þú gætir ekki hreyft eitt sandkorn úr sínum stað án þess að breyta einhverju í stóra samhengi hinnar ómælanlegu heildar.” (Die Bestimmung des Menschen, 1800). Báðir Bradbury og Fichte lýsa því fyrirbæri sem seinna varð vísindalega þekkt sem Fiðrildaáhrifin, hugmyndafræði um að á viðkvæman hátt séu allir hlutir hverjum öðrum háðir, sem jafnan er beitt innan óreiðukenningar og lýsir því hvernig smávægilegar breytingar innan ólínulegs kerfis geta af sér leitt stórar, ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Kenningin á rætur sínar að rekja til þeirrar myndlíkingar að formgerð og farvegur hvirfilbyls geti ákvarðast af minniháttar breytingum í vængjaþyt fiðrildis. Hugtakið var sett fram í fyrirlestri eftir bandarískan veðurfræðing að nafni Edward N. Lorenz og
bar titilinn ,,Fyrirsjáanleiki: Orsakar vængjasláttur fiðrildis í Brasilíu hvirfilbyl í Texasríki?” og var fluttur á ráðstefnu samtaka bandarískra vísindamanna árið 1972.

Áhugavert nokk, þá nefndi Lorenz upprunalega vængjaþyt fugls, í stað fiðrildis (og getum við aðeins gefið okkur þá staðreynd að honum hafi þótt fiðrildið búa yfir ljóðrænni eiginleikum og að hann hafi þar af leiðandi breytt dýrategundinni), og er það einmitt í gegnum fugla sem við eigum okkar fyrstu kynni af sýningunni Þrettándi mánuðurinn – sem getur ekki talist annað en forsjáll titill á einkasýningu Styrmis Arnar Guðmundssonar. Hægt og rólega, sveima fuglarnir í fullkomnu jafnvægi yfir jörðu, og byrja jafnóðum að hreyfa sig í takt við blíðan gust sem berst frá útidyrunum þegar þær opnast eða gestur sýningarinnar gengur framhjá. Þessir eiturgrænu fuglar virðast vera frá annarri veröld og tíma – frá óræðum stað – og í gegnum hreyfingu þeirra gæti farið af stað ófyrirsjáanleg atburðarrás.

Þessar framandi, en jafnframt kunnuglegu verur, virka líkt og tengill inn í hina dularfullu veröld sem líta má í verkunum sem umlykja þær. Umfangsmiklar og ítarlegar blekteikningar, óræður, samofinn stálskúlptúr liggur á gólfinu, útsaumað fullt tungl úr ull, og það sem jafnvel telst ískyggilegast af öllu, baksýnisspegill á priki. Við fyrstu sýn virðast allir þessir hlutir búa yfir dulrænum eiginleikum, eða tímaleysi (í þeim skilningi að þeir standa utan við línulegan, mælanlegan tíma).

Annar sameiginlegur eiginleiki þessarra skúlptúra virðist auk þess vera að þeir þarfnist nærveru áhorfanda til þess að koma þeim á hreyfingu (sem
listamaðurinn mælist eindregið til). Svo tekið sé dæmi um verkið Gestaþraut, sem er þrívíð gáta sem búið er að blása upp í óvenjulega stærð og er svo þung að tvo þarf til að lyfta henni af jörðinni og leysa gátuna. Eða litið sé til verksins Huglægt Sjálfuprik, eins konar heimagerðrar lágtækni útgáfu af hefðbundnu sjálfupriki, sem leyfir gestum að líta myndlistina augum á meðan þeir geti horft á sjálfan sig á sama tíma, og litið þannig fram á við og aftur á bak og fram á við og aftur á bak. Það sem eftir situr er endurgerð ímyndarinnar, huglæg ljósmynd.

Hinar stórgerðu teikningar af dökkum múrsteinsgöngum ljóma af aðdráttarafli, sem er svo sterkt að áhorfandi telur sig eiga á hættu að sogast inn í þær. Það er freistandi að leyfa sér að hugsa að þessar teikningar sýni útsýnið úr tímaferðalaginu úr sögu Bradbury. Fram hjá hversu mörgum árum, áratugum, öldum jafnvel, munum við fara framhjá, og það sem mestu máli skiptir, hvað bíður okkar við hinn enda ganganna? Önnur teikning sýnir fljótandi hluti í kringum ósýnilegan massa, feiknarstórt svarthol, djúpt inni í alheiminum. Við nánari athugun virðast þessir umræddu hlutir vera skór, billjónir strigaskóa, stígvéla, hælaskóa og sandala sem fljóta um í himingeimnum. Við munum ferðast í gegnum tíma og rúm, inn í fjarlæga framtíð til þess eins að komast að því að mannkynið hefur sett fótspor sitt á veröldina og að hún sé full af hlutum, mannlegum hlutum.

Umvafin þessum verkum, á maður erfitt með að hrista af sér þá tilfinningu að eitthvað skringilegt (lesist sem óvenjulegt, undarlegt, stórmerkilegt) sé á seyði og að ímyndunarafl okkar og hegðun sé að virkilega ögrað. Mögulega er þetta ímyndaða einingin sem listamaðurinn hafði í huga þegar hann valdi titil sýningarinnar, Þrettándi mánuðurinn. Titillinn vísar í hugmyndina um aukamánuð, rými eða tímaeiningu sem á sér stað utan viðurkennds tímatals. Hann myndgerir hið tilviljunarkennda kerfi sem mannkynið beitir á tímahugtakið, með því að beita á það reglu og röð, og minnir á hin óteljandi dagatalskerfi sem hafa verið til og eru enn við lýði. Að sama skapi er freistandi til þess að hugsa: Ef við getum búið til tíma, getum við þá eftir allt saman stigið út fyrir hann? Það er í okkar höndum að kanna og henda reiður á hið magnaða veldi möguleikanna sem eru til staðar.
-Katharina Wendler

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com