SONY DSC

Opnun í Nýlistasafninu: The Primal Shelter is the Site for Primal Fears

Nýlistasafnið býður ykkur innilega velkomin á opnun síðustu sýningar safnsins í verkefnarými sínu í Breiðholti, laugardaginn 26. nóvember kl. 16:00.

Sýningin The Primal Shelter is the Site for Primal Fears er samstarf og hugarfóstur listamannsins Patrik Aarnivaara (SE) and sýningastjórans Maija Rudovska (LV), þar sem þau skoða efni ótta og hryllings í tengslum við rými og arkitektúr.

Listamennirnir og sýningastjórarnir koma til landsins í tilefni sýningarinnar.

Listamennirnir eru Darren Banks (UK), O.B. De Alessi (IT/FR), Shirin Sabahi (IR/DE), Alexandra Zuckerman (IL), Johan Österholm (SE), Christian Andersson (SE), Elín Hansdóttir (IS), Yuki Higashino (JP/AT) og Barbara Sirieix (FR).

Hér má sjá viðburðinn á fésbók Nýlistasafnsins.

Sýningin þróaðist út frá áhuga sýningarstjóranna á hryllingsmyndum sem tegund kvikmynda þar sem ákveðin fagurfræði og ótti eru oft sköpuð með arkitektúr. Rannsókn sýningarstjóranna fór fram í vinnustofudvöl þeirra í HIAP, Helsinki fyrir nokkrum árum, undir verkheitinu Scenography of Horror, þar sem þau söfnuðu efni, ljósmyndum, texta og myndböndum sem að endingu var tekið saman og kynnt á fyrirlestri í Helsinki ári seinna. Allt þetta efni myndar undirstöðu sýningarinnar sem er sett nú upp í Nýlistasafninu.

Arkitektúr flæðir á milli raunheima og sýndarheima, í langvarandi ástandi sem erfitt er að henda reiður á, flöktandi á milli hins efnislega og óefnislega. Auga myndavélarinnar myndar óljóst svæði, veitir okkur útsýni innan frá, sýnir heiminn ekki aðeins eins og við sjáum hann með eigin líkama, heldur einnig frá sjónarhorni annarra vera og hluta. Sjónvarpsskjárinn verður hýsill fyrir andlegt rými og leið fyrir ímyndunarafl okkar að ferðast í gegnum arkitektúr og fyrir arkitektúr að ferðast í gegnum okkur, við sjáum ekki líkama okkar þegar við skoðum heiminn, rétt eins og við sjáum ekki kvikmyndavélina sjálfa þegar við horfum á kvikmynd.

Það er við hæfi að sýningin sem Nýlistasafnið kveður verkefnarými sitt í Breiðholtinu með, eftir tvö farsæl ár, kallist á við hrollinn og óhugnaðinn sem fylgir yfirgefnum rýmum. Listamennirnir munu leika sér með rýmið, tómleikann sem fannst í því fyrir tíma safnsins þegar rýmið var yfirgefið bakarí, og hugmyndina um drungann sem ef til vill mun ná yfirhöndinni á ný, nú þegar rýmið verður yfirgefinn sýningarsalur.

Sýningin stendur til sunnudagsins 18. desember 2016

Opnunartími er frá 11:00 – 17:00 þriðjudaga til föstudaga og um helgar frá 13:00 – 17:00.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com