Því Að Mold Ert þú Og Til Moldar Skaltu Aftur Hverfa (2017)

Opnun: Myndlistarsýning Gretars Reynissonar, ’20 40 60′, Kirkjutorgi í Neskirkju, kl. 11, sunnudaginn 2. apríl

Myndlistarsýning Gretars Reynissonar 20 40 60 verður opnuð á Kirkjutorgi í Neskirkju að lokinni messu kl. 11, sunnudaginn 2. apríl.

“Sá, sem aðeins vill vona, er huglaus; sá sem aðeins vill minnast, er makráður; en sá, sem vill endurtekninguna, er manneskja. […] Hefði sjálfur Guð ekki viljað endurtekninguna, hefði heimurinn aldrei orðið til. Hann hefði þá annaðhvort haldið auðfarnar slóðir vonarinnar eða afturkallað allt og varðveitt það í endurminningunni.”

Danski guðfræðingurinn Sören Kierkegaard ræðir hér hina sístæðu sköpun sem á sér stað hvert andartak sem tíminn tifar.

Sýning Gretars Reynissonar 20 40 60 kallast á við þessa sömu hugsun. Í henni frystir listamaðurinn andartakið á tveimur myndum, af hönd hans og handarfari í mold, sem teknar eru með fjörutíu ára millibili. Moldin tengir okkur við dauðann og endurtekninguna. Hún er bæði hrörnun hins dauða og vagga frjókornanna sem upp úr henni vaxa. Moldin er dauði og líf og það á við hverja lífveru: “Því að mold ert þú og til moldar skaltu aftur hverfa”, segir í Fyrstu Mósebók.

Um þetta orti líka Hallgrímur Pétursson: “Fölnar fold, fyrnist allt og mæðist; hold er mold, hverju sem það klæðist.”

Og moldin teygir sig upp á veggina þar sem gestir og gangandi fá að setja fingur í mold og þrýsta þeim svo á vegginn. Úr verða 500 fingraför sem minnir á 500 ára afmæli siðbótarinnar. Á erlendum málum kallast hún “reformation” og er á sinn hátt óður til endurtekningarinnar: “Re-form” merkir orðrétt “endur-mótun”, það er afturhvarf til hins upprunalega og siðbótarmenn fullyrtu að reformasjónin væri ekki einstakur atburður heldur sífelld endurtekning.

Sjálfur er Gretar jafnaldri Neskirkju, bæði eiga 60 ára afmæli á þessu ári. Tíminn fléttast því saman í fortíð og nútíð listamannsins og lífið lætur smátt og smátt undan dauðanum. Hvað tekur svo við að því loknu? Vill Guð endurtekninguna eins og Kierkegaard fullyrti? Hvílir öll sönn mennska á endurtekningunni?

Gretar Reynisson lauk myndlistarnámi frá Nýlistadeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1978 og var við framhaldsnám í Amsterdam 1978-79. Gretar hefur haldið fjölda einkasýninga hér á landi og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis, en árið 2013 var Gretar útnefndur heiðurslistamaður myndlistarhátíðarinnar Sequences. Gretar hefur unnið sem leikmyndahöfundur frá árinu 1980 og er margverðlaunaður fyrir störf sín í leikhúsi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com