Boskort

Opnun ljósmyndasýninga í Þjóðminjasafni Íslands

Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar á tveimur ljósmyndasýningum laugardaginn 8. september 2018 kl. 14. Verið öll velkomin.

MYNDASALUR
Hver er á myndinni?
Greiningarsýning á ljósmyndum eftir Alfreð D. Jónsson

Ljósmyndun var lengi fyrst og fremst í höndum fagmanna. Einn af fjölmörgum portrettljósmyndurum Reykjavíkur fyrir miðja síðustu öld var Alfreð D. Jónsson. Hann rak ljósmyndastofu, fyrst á Klapparstíg 37 árin 1931–1935 og síðan á Laugavegi 23 árin 1935–1952.

Filmusafn Alfreðs var afhent Ljósmyndasafni Íslands til varðveislu fyrir fáum árum. Það var að litlu leyti skráð. Myndirnar á þessari sýningu eru allar frá ljósmyndastofu Alfreðs. Fólkið er allt óþekkt og nafnlaust. Gildi myndar eykst mikið ef vitað er hvern hún sýnir. Þekkir þú eitthvert andlit hér á veggjum? Ef svo vill til, er um að gera að koma þeim upplýsingum á framfæri á þar til gerðum blöðum.

VEGGUR
Aldarminning
Hjálmar R. Bárðarson (1918–2009)
Sýning á Vegg í Myndasal á litljósmyndum Hjálmars R. Bárðarsonar.

Ljósmyndun var ástríða Hjálmars frá unglingsárum. Árið 1968 urðu litmyndir allsráðandi í hans ljósmyndun. Hjálmar skapaði sér vettvang fyrir ljósmyndir sínar í eigin bókaútgáfu sem hann vann að öllu leyti sjálfur; hannaði, braut um, tók myndir og skrifaði textann. Í níu bóka hans voru litmyndir uppistaðan sem fræðilegur texti var ofinn í kringum. Efni bókanna var margþætt: Náttúrufar landsins; gróður, grjót og fuglar. Landkynning þar sem rakin var saga lands og þjóðar með völdu myndefni og einstakir landshlutar með vísun í náttúrufræði og sögu héraðsins. Viðfangsefni bókanna stýrðu efnistökum í ljósmyndun Hjálmars hverju sinni. Hjálmar var annar Íslendinga til að sérhæfa sig í fuglaljósmyndun. Þetta örlitla úrval litmynda Hjálmars á Veggnum endurspeglar nálgun hans og myndefni. Hjálmar var velgjörðarmaður Þjóðminjasafns Íslands og hans er minnst með virðingu og þökk.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com