Opnun í Gallerí Vest – Laugardaginn 15.ágúst

Heartbeat2-portfolio
Structure – An array of parts
Opnun 15. ágúst frá 15:00-17:00

Opið fimmtudag til sunnudags frá 14:00-18:00, 15/08-30/08

Gallerí Vest
Hagamel 67
107 Reykjavík
Sýningin, Structure – An array of parts er samsett af verkum fjögurra evrópskra myndlistarmanna sem búa og starfa í New York. Structure hefur víðtæka merkingu eða allt frá byggingu til fyrirkomulags og vísa verk þeirra til þessa hugtaks á einn eða annan hátt. Myndlistarmennirnar sem koma að sýningunni eru: Carmen Kende, Habby Osk, Laura Lappi og Rick Eikmans.

Carmen Kende hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum í New York og Berlín. Hún er við meistaranám í ljósmyndun í Bard College í New York fylki. Carmen ólst upp í Þýskalandi en á ættir sínar að rekja til Balkansskagans. Með verkum sínum veltir Carmen fyrir sér formi og uppsetningu mynda, þeim upplýsingum sem þær gefa og dreifingu þeirra í þeim myndræna heimi sem við búum núna í.

Habby Osk hefur sýnt víðsvegar um Bandaríkin, Evrópu og Asíu. Hún hefur haldið fimm einkasýningar á Íslandi og Bandaríkjunum þ.á.m. á Listasafninu á Akureyri og Gallerí Þoku. Habby er með meistaragráðu frá School of Visual Arts í New York og með BFA gráðu frá AKI ArtEz Institute of the Arts í Enschede í Hollandi. Með verkum sínum skapar hún skipulag og kerfi þar sem bæði stöðugleiki og jafnvægi eru megininntakið. Varanleiki og hverfulleiki eru líka hugtök sem hún vinnur með en oft þurfa verk hennar að streitast við að viðhalda sínu eiginlega ástandi.

Laura Lappi og Rick Eickmans hafa tekið þátt í fjölmörgum sýningum í Evrópu og sett upp útilistaverk í Finnlandi, einnig voru þau í gjörningahópi í Rotterdam í Hollandi. Þau luku bæði BFA gráðu í myndlist frá AKI ArtEz Institute of the Arts í Enschede í Hollandi. Laura Lappi er fædd í Finnlandi og Rick Eickmans er fæddur í Hollandi, og mynduðu þau samstarf sitt í Hollandi. Hugðarefni Laura og Rick eru skynjun og upplifun í rými. Þau rannsaka fyrirkomulag og uppbygginu í umhverfinu og áhrif þeirra á heilann þ.e.a.s. hvernig við skynjum og upplifum mismunandi rými og hver eru sálfræðileg áhrif þeirra.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com