Syn

Opnun í Hallgrímskirkju: Kristín Reynisdóttir – SYNJUN / REFUSAL

Listsýning Kristínar Reynisdóttur, SYNJUN, verður opnuð í forkirkju Hallgrímskirkju sunnudaginn 25. febrúar 2018 við messulok kl.12:15.

Sýningin er á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju. Sýningarstjóri er Rósa Gísladóttir.

Allir eru hjartanlega velkomnir og verða léttar veitingar í boði Hallgrímssafnaðar.

Eins og fram kemur í umfjöllun Guju Daggar Hauksdóttur í sýningarskrá vinnur Kristín með við, sem fenginn er úr ruslakompu trésmiðju og ber því á táknrænan hátt tilvísun í tilvistarlega stöðu flóttamanna, sem eru afgangs og aflóga á flótta sínum frá styrjöldum í heiminum. Viðurinn er í formi fínlegra og viðkvæmra lista af ýmsum tegundum trjáa, bæði harðvið og mjúkum við, dökku tré og ljósu, sem átt hefur rætur og vaxið hefur á ólíkum stöðum og við ólík skilyrði, en hefur á þessum tímapunkti skilað sér upp á Íslands strendur. Innsetning Kristínar í Hallgrímskirkju er auðmjúk og fínleg, en jafnframt margræð, þar sem hún ávarpar þann aukna straum flóttamanna sem verið hefur að undanförnu til Íslands, og þeirri miskunnarlausu ákörðum stjórnvalda að vísa meirihluta þeirra af hörku aftur úr landi.

Myndlistarmaðurinn Kristín Reynisdóttir (1961) stundaði nám sitt, fyrst við Myndlista- og handíðaskóla Íslands (1983-1987) og síðan við Staatlische Kunstakademie Düsseldorf í Þýskalandi (1987-1989). Verk Kristínar eru gjarnan innsetningar í rými, sem gera hvort tveggja; að ávarpa þann sérstaka stað sem þau eru sett inn í og velta upp sammannlegum þáttum með tilvísanir í upplifanir og tilfinningar.

Sýningin stendur til 13. maí 2018 og er opin alla daga kl. 9 – 21.

www.listvinafelag.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com