Etiquette Vinyl Print

Opnun: Guðný Rósa Ingimarsdóttir í Hverfisgalleríi 6. maí

Guðný Rósa Ingimarsdóttir opnar aðra einkasýningu sína í Hverfisgalleríi laugardaginn 6. maí kl 16.00 og ber sýningin yfirskrift þagnarmerkisins í tónlist. 

Jón B. K. Ransu myndlistarmaður skrifar um sýninguna: „Úr þögninni hefst sköpunin. Hún er leiksvæði listamannsins. Bæði listmálarinn sem ræðst á hvítgrunnaðan strigann með litum og formum og tónskáldið sem fyllir loftið hrífandi hljómum vilja hylja þögnina. Þó, eins og bandaríska tónskáldið John Cage benti réttilega á, heyrir maður aldrei algera þögn. Allavega ekki þegar maður hlustar. Það eru alls staðar einhver hljóð. Þögnin á milli tóna er að því leytinu ekki hljómlaus, ekki frekar en að hvítur litur í málverki er ósýnilegur. Textinn er að því leytinu afstrakt rétt eins og tónar í tónverki og litir í málverki. Hann þarf ekki að gefa ákveðna mynd,“  ritar Jón.

„Það sama á við um texta í myndverki. Hann getur gefið ákveðna mynd en hann getur líka verið afstrakt. Og þannig er svo sannarlega ein birtingamynd hans í annars margræðum myndverkum Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur. Því þótt textinn kunni að vera samsettur úr orðum eða táknum, er hann að sama skapi stef sem líður um eins og hljóðræn teikning eða form á þöglum fleti.“

Guðný Rósa Ingimarsdóttir hefur frá upphafi byggt verk sín upp á endurtekningu, ákveðnum persónulegum takti sem hefur verið vísun í minningar um gjörninga framkvæmda í einveru á vinnustofu listakonunnar – eins konar fryst augnablik.

Guðný Rósa Ingimarsdóttir (1969) er fædd í Reykjavik en býr og starfar í Brussel. Hún stundaði nám ì Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í L’Ensav La Cambre í Brussel og í HISK í Antwerpen í Belgíu. Guðný Rósa hefur haldið á þriðja tug einkasýninga í Reykjavík, Brussel, Madrid, Düsseldorf og Antwerpen og á sjötta tug samsýninga. Verk eftir Guðnýju Rósu eru í eigu fjölmargra opinberra og einkasafna í Evrópu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com