Z9A7246copy2.102307

Opnun: Einkasýning Steingríms Eyfjörð í Hverfisgalleríi 4. nóv

Pareidolia – fyrsta einkasýning Steingríms Eyfjörð í Hverfisgalleríi – opnun laugardaginn 4. nóvember

Fyrr á árinu gekk myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð í raðir listamanna Hverfisgallerís, þar sem hann opnar fyrstu einkasýningu sína, Pareidolia, laugardaginn 4. nóvember klukkan 16.00. Pareidolia er sálrænt fyrirbrigði þar sem hugur einstaklingsins bregst við áreiti, oftast nær mynd eða hljóði, og framkallar kunnuglegt mynstur þar sem ekkert var fyrir. Þannig sjáum við tákn, dýr og andlit úr alls ótengdu mynstri – nokkurs konar sjónsköpun.

Kveikjan að verkunum á sýningunni er hugar- og átakaheimur kalda stríðsins sem var og hét en verk Steingríms eru fyrst og fremst samtöl þar sem ólíkri reynslu og skoðunum er teflt fram og reynt að rekja í þeim þræðina. Viðfangsefnin koma úr ýmsum áttum, þræðirnir liggja víða og allt virðist eiga erindi í samtal Steingríms: Samfélagsmál, sálfræði, hindurvitni og hjávísindi, sögur, myndlist og bókmenntir. Þetta er díalektísk aðferð þar sem leitin að tengingum og skilningi er samkomulagsatriði milli ólíkra sjónarhorna frekar en að hún lúti einni, röklegri reglu. Vinnsla og frágangur verkanna er líka samræða milli ólíkra leiða og miðla. Þótt texti, í einhverri mynd, hafi lengi verið gegnumgangandi í verkum Steingríms hefur hann líka búið til skúlptúra af ýmsu tagi og innsetningar, unnið með teiknimyndaformið, og notað bæði ljósmyndir og vídeó. Gestir á sýningum Steingríms ganga inn í samræðuna.

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er einn af okkar fremstu samtímalistamönnum og hefur hlotið margs konar viðurkenningar fyrir listsköpun sína á Íslandi og erlendis. Steingrímur nam myndlist á Íslandi og í Hollandi og hefur í verkum sínum farið inn á merkingarsvið heimspeki, vísinda, félags- og mannfræði þar sem viðfangsefni verkanna geta verið um jafnólíka hluti og trúmál, pólitík, dægurmenningu, íslenska þjóðmenningu og sögu. Steingrímur á að baki yfir hundrað einkasýninga og samsýninga, á Íslandi og erlendis, m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Gerðarsafni, Listasafninu á Akureyri, Den Haag Gemeente Museum, Royal College of Art (London), Mücsarnok (Budapest), Centre International d’Art Contemporain (Carros, Frakklandi), Meilahti Art Museum, (Helsinki), Henie Onstad Kunstcenter (Osló) og Feneyjartvíæringnum 2007. Hann hlaut sjónlistarverðlaunin árið 2008 fyrir sýningu sína á Feneyjatvíæringnum og var tilnefndur til Carnegie Art Award 2004 og aftur 2006 og hlaut Menningarverðlaun DV fyrir myndlist árið 2002.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com