DSC03595

Opnar vinnustofur – Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Jón Laxdal

Opnar vinnustofur á aðventu undanfarin 17 ár

Í ár eins og undanfarin 17 ár opna Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Jón Laxdal vinnustofur sínar um aðventuhelgar kl. 14.00 – 18.00.  Frá árinu 2000 og til 2004  voru vinnustofurnar í  listagilinu svokallaða á Akureyri en síðan þá í Freyjulundi sem er 17 km. norður af Akureyri við Dalvíkurveg.  Freyjulundur er líka heimili fjölskyldunnar og er gestum boðið í kaffi og meðlæti af gömlum og góðum sveitasið. Fólki gefst færi á að skoða ný og eldri verk þeirra Aðalheiðar og Jóns og eiga notalega stund í jólaamstrinu. Eitt og annað smáverk gæti ratað í jólapakkana en listamennirnir hafa öll þessi 17 ár komið til móts við velunnara og áhugasama með því að gera minni verk sem henta til gjafa.  Árið 2000 hóf Aðalheiður að gera jólaköttinn úr spítuafgöngum við góðar móttökur gesta.  Þessir litlu skúlptúrar hafa tekið töluverðum breitingum í gegnum tíðina og eru engir tveir eins. Aðalheiður skemmtir sér við þá sögu að jólakötturinn eigi heima í Kötlufjalli við utanverðan Eyjafjörð og vakni af værum blundi í nóvember. Á leið sinni niður á Ráðhústorg á Akureyri kemur hann við í Freyjulundi og gýtur þessum litlu jólaköttum.

Aðalheiður opnar einnig vinnustofu sína í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 6. des. kl. 16.00 með sýningu á eigin verkum sem unnin eru nú á haustmánuðum. Sýningin ber yfirskriftina Blóm og er að mestu málverkasýning.

Sem sagt fyrstu, þriðju helgi og á Þorláksmessu opið í Freyjulundi 601 Akureyri, aðra aðventuhelgina opið í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com