Bird Portrait Large

Opinn fyrirlestur í Myndlistardeild LHÍ: Styrmir Örn Guðmundsson

Föstudaginn 16. desember kl. 13 mun Styrmir Örn Guðmundsson halda opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuferli í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Styrmir Örn Guðmundsson (f. 1984) er maður frásagna og gjörninga auk þess sem hann syngur, býr til hluti og teiknar. Hann laðast að hinu fjarstæðukennda að því leytinu til að hann hefur ástríðu sem jaðrar við þráhyggju fyrir hinu fáránlega, bjánalega eða skrítna, en á sama tíma hefur hann blítt og hugulsamt viðhorf gagnvart því: hann hugsar vel um hið fjarstæðukennda, hann hjálpar því að þroskast, hann gefur því rými þar sem það getur bæði orkað stuðandi og þægilegt. Styrmir stundaði listnám í Gerrit Rietveld Academy (BFA) og Sandberg Institute (MA) í Amsterdam og í kjölfarið hefur hann unnið á alþjóðlegum vettvangi bæði í hvítum galleríum, svörtum leikhúsum og náttúrulegum rýmum. Styrmir býr í Varsjá í Póllandi.

Sem iðkandi ‘kamelljónsstíls’ trúir Styrmir því að úrræði geti skapast með því að bræða saman þau öfl sem hrærast innra með manni, hið innhverfa og hið úthverfa. Performansiðkun hans er úthverf, andstætt teiknileikninni sem er innhverf. Í fyrirlestrinum mun Styrmir tjá sig um þessa tvo gagnstæðu póla og gefa innsýn í tvö verkefni sem nú eru í býgerð. Þá mun hann fjalla um vinnuaðferðir og helstu áhrifavalda sína – svo sem Jóhannes S. Kjarval, Hrein Friðfinnsson og hip hop kúltúrinn.

Verkið ‘What Am I Doing With My Life’ fjallar um heilun og nálastungu. Gjörningurinn er blanda uppistands, tónleika og myndlistarsýningar. Í viðfangsefni uppistandsins og söng verður til höfuðhögg milli Vest- og Austrænnar læknisfræði. Sem flytjandi, söngvari og myndhöggvari setur Styrmir sig í hlutverk sjúklings og í senn læknis. Með gjörningnum vonast Styrmir til að hughreysta mannslíkamann, víkka dýptarsýn á öðru en vestrænum klisjum, og að heila þau rými sem hann heimsækir.

Þá mun Styrmir fjalla um teikningar sínar sem einkennast af einskorðuðum stíl svartlistar. Það hefur lengi verið draumur Styrmis að segja sögur með svartlist sinni en sökum agaleysis á teikniborði hefur það gengið brösuglega. Þangað til daginn sem hann hitti Leókadíu! Í fyrirlestrinum mun Styrmir leika þátt uppúr bók sinni Leókadíu, grafískri skáldsögu sem hægt og bítandi gerjast í Varsjá. Bókin er spi-fi saga (spiritual fiction) þar sem grannt er fylgst með aðalpersónunni Leókadíu sem lendir í nærri-dauða-upplifun á sjúkrahúsi og öðlast þann tryllta hæfileika að geta skroppið inn og út úr þeim heimi sem bíður okkar eftir klínískan dauða.

Eins og sjá má hefur Styrmir vaxandi áhuga á dauðanum og lækningum. Hefði hann ekki plummað sig miklu betur í læknisfræðideild frekar en myndlist? Er of seint að byrja uppá nýtt?

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku, ensku og pólsku og er öllum opinn.

Viðburðurinn á Facebook.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com