Listagilid

Opið í Listasafninu á Akureyri á Jónsmessunótt

Í tilefni af Jónsmessu verður opið allan sólarhringinn í Listasafninu á Akureyri og aðgangur ókeypis. Að venju verður opnað kl. 10 að morgni fimmtudagsins 23. júní en safninu ekki lokað fyrr en kl. 17 föstudaginn 24. júní. Eftir miðnætti kl. 01 verður boðið upp á vasaljósaleiðsögn um sýninguna Nautn / Conspiracy of Pleasure. Hlynur Hallsson safnstjóri gengur með gestum um sýninguna í rökkri vopnaður vasaljósi og segir frá einstaka verkum og listamönnunum. Vasaljós verða í boði fyrir gesti.

Gestum er velkomið að gista í Listasafninu og áhugasamir hvattir til þess að taka með sér létta dýnu, svefnpoka eða sæng og njóta þessa að sofa vært í sýningunni. Morguninn eftir kl. 09-10 verður dögurður í Listagilinu á grasflötinni milli Listasafnsbyggingarinnar og Ketilhússins. Gott er að taka með sér kaffi á brúsa, teppi og nesti og sitja í sólinni með góðum vinum og fuglasöng.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com