F

Open call – Feneyjar 2019

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) kallar eftir tillögum að framlagi Íslands til 58. alþjóðlega myndlistartvíæringsins í Feneyjum 2019.

Feneyjatvíæringurinn er einn elsti og virtasti listviðburður heims, stofnaður árið 1895. Ísland hefur tekið þátt í tvíæringnum frá 1960.

Hátt í hundrað lönd taka að jafnaði þátt í Feneyjatvíæringnum. Árið 2017 sóttu yfir 600 þúsund gestir tvíæringinn á því sjö mánaða tímabili sem sýningin stóð yfir og fullyrða má að allir áhrifaaðilar hins alþjóðlega myndlistarheims mæti þar til leiks. Þeir listamenn sem hafa komið fram fyrir hönd Íslands á Feneyjatvíæringnum starfa á alþjóðlegum vettvangi og hafa skapað sér nafn bæði hérlendis og erlendis. Sýningarnar hafa vakið mikla athygli og stuðlað að auknum sýnileika íslenskrar myndlistar á alþjóðavettvangi.

Til margra ára, eða allt frá 1984, var íslenska sýningin í finnska skálanum sem var leigður af Finnum, en sá skáli er staðsettur inni í hinum svonefndu Görðum tvíæringsins þar sem margar þjóðir hafa byggt eigin skála. Frá því að KÍM tók að sér framkvæmd verkefnisins árið 2007 hefur íslenski skálinn hins vegar verið staðsettur í húsnæði víðs vegar um borgina. Þeir Steingrímur Eyfjörð (2007) og Ragnar Kjartansson (2009) sýndu í hinu aldagamla og fagra rými Palazzo Michiel dal Brusa við Canal Grande, en Libia Castro og Ólafur Ólafsson (2011) og Katrín Sigurðardóttir (2013) sýndu í gömlu þvottahúsi Palazzo Zenobio í Collegio Armeno Moorat-Raphael í Dorsoduro, sem er staðsett inni í fallegum rósagarði sem er ekki að finna á hverju strái í Feneyjaborg.  Christoph Büchel sýndi í kirkjunni Santa Maria della Misericordia (2015), og 2017 sýndi Egill Sæbjörnsson ásamt tröllavinum sínum Ugh & Boogar í sýningarhúsnæði á eyjunni Giudecca.

Kynningarmiðstöðin kallar nú í þriðja sinn eftir tillögum að framlagi Íslands til Feneyjatvíæringsins, en sá háttur var í fyrsta skipti hafður á fyrir sýninguna 2015.

Frestur til að skila inn tillögum að framlagi Íslands til 58. alþjóðlega myndlistartvíæringsins í Feneyjum 2019 er til 1. mars 2018.

Valferlið verður í tveimur þrepum: Fagráð KÍM mun ásamt tveimur gestum sem starfa innan alþjóðlegrar myndlistar taka þátt í störfum ráðsins fara yfir allar innsendar tillögur og velja úr þeim þrjár tillögur til nánari útfærslu fyrir lokaval.

– Þeim umsækjendum sem verður boðið að vinna tillögur sínar áfram verður úthlutað 250.000 krónum hverjum til að vinna að nánari útfærslu tillögu sinnar.

Tilkynnt verður í lok maí 2018 um hvert verður framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2019.

Frekari upplýsingar og leiðbeiningar fyrir umsóknarferli er hægt að nálgast á www.icelandicartcenter.is og hjá Björgu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra KÍM: bjorg@icelandicartcenter.is, sími: 562 7262.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com