Ólöf Rún Benediktsdóttir og Rán Jónsdóttir – Hann yrðir

Myndlistarmennirnir  Ólöf Rún Benediktsdóttir og Rán Jónsdóttir opna sýninguna Hann yrðir í Anarkíu listasal í Kópavogi þann 7. Febrúar kl. 16. Í verkum sínum skeyta listamennirnir saman hefðbundnu handverki og sérhæfðum iðnaðarefnum. Ef kaðlar í netum togara eru fallegir þá er það alveg örugglega óviljandi. Slaufur og dúskar þjóna hinsvegar engum tilgangi, nema þeim að fegra og skreyta. Hvaða tilgangi þjónar þá flétta úr netaköðlum? Eða slaufa úr hænsnavír? Efnið er hér notað af fullkomnu skeytingarleysi um upprunalegan tilgang þess. Listamennirnir virða að vettugi reglur handverksmanna um efnisval og þröngva grófu efninu í fínleg form handverksins. Skúlptúrarnir taka sér stöðu mitt á milli þess harða og hins mjúka, milli hins kvenlæga og karllæga og milli veraldar heimilisins og vinnustaðarins.

Ólöf hefur lokið BA-gráðu og Rán hefur lokið MA-gráðu frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

 

Sýningin stendur til 1. mars.

 

Anarkía listasalur er til húsa í Hamraborg 3 í Kópavogi (inngangur að norðanverðu). Þar er opið þriðjudaga til föstudaga kl. 15-18 og kl. 14-18 um helgar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com