Sjálfsbirting ÓDJ

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir opnar einkasýningu

Miðvikudaginn 17. febrúar kl. 20:00 opnar Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir einkasýningu í Gallerí Úthverfu /Outvert Art Space.  Sýningin ber heitið SJÁLFSBIRTING og stendur til 20. mars 2016.

Ólöf Dómhildur hefur eftirfarandi að segja um sýninguna:

,,Verkin endurspegla yfirborð líkamans en fjalla um sjálfið sem liggur undir yfirborðinu. Kvenleiki og mótun kvenleikans er eitt af því sem ég er að skoða, mótun líkamans og sálarinnar með það að markmiði að ná æðsta stigi þarfapíramídans í sjálfsbirtingu. Ég styðst m.a. við kenningar Abraham Maslow um þarfir og hvatir fólks sem leiða til hegðunar sem leiða allar að ákveðnu markmiði, leiðina að sjálfsbirtingu í gegnum mótun líkama og að uppfylla þörf fyrir virðingu sjálfs og annarra í gegnum mótun líkamans.”

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir stundaði myndlistarnám við Myndlistardeild Listaháskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með BA-gráðu 2006.  Hún var einnig við ljósmyndanám í Iðnskólanum í Reykjavík 2008 og lauk MA námi í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands 2015.  Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar frá árinu 2002 bæði erlendis og hér heima. Ólöf Dómhildur hefur einnig verið mjög virk í menningarlífinu og tekið þátt í að skipuleggja menningarhátíðir, uppákomur og sýningar.  Hún var verkefnastjóri og síðan rekstrarstjóri Edinborgarhússins á Ísafirði á árunum 2012-2014 og kennir nú myndlist og Fab Lab á öllum stigum við Grunnskólann á ísafirði.

Ólöf Dómhildur var kosin bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar 2015.

Gallerí Úthverfa / Outvert Art Space er starfrækt í samstarfi við ArtsIceland og nýtur styrkja úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og frá Ísafjarðarbæ.

GALLERÍ ÚTHVERFA/OUTVERT ART SPACE

Aðalstræti 22 – 400 Ísafjörður – Iceland

www.kolsalt.is/outvert-art-space

galleryoutvert@gmail.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com