Kristín Geirsdóttir

Óður til jarðar, blá jörð, græn jörð – myndlistarsýning Kristínar Geirsdóttir í Gallerí Göng, Háteigskirkju

Næstkomandi sunnudag, hvítasunnudag, 9. Júní kl. 12 – 14 opnar Kristín Geirsdóttir myndlistarsýningu í Gallerí Göngum í Háteigskirkju. Kristín sýnir málverk máluð á striga, pappír, MDF plötur og kristalsskálar.  Myndirnar eru frá tveimur síðustu árum. Sýningin er opin alla virka daga kl. 10-16 og á messutíma á sunnudögum kl. 11-12 og lýkur fimmtudaginn 11. júlí. Allir eru velkomnir. 

Um verk Kristínar hefur Ragna Sigurðardóttir rithöfundur og myndlistarmaður skrifað í sýningarskrána Tværogein:   „Kristín Geirsdóttir hefur um árabil markað sér sérstöðu í íslensku málverki þar sem hún bregður sér í ýmis hlutverk í rannsóknum sínum og sköpun.  Vísindamaðurinn fylgist náið með áhrifum þyngdaraflsins, viðnámi og flæði og ferli olíulita sem renna eins og regndropar á rúðu niður lóðréttan myndflöt eða falla eins og dropar á lágréttan flöt. Málarinn velur liti sem vinna saman og kalla fram ákveðin hughrif. Listakonan skapar verk sem byggja á samspili innri og ytri veruleika, náttúrunni umhverfis og í sálinni.“ . . .  „Auga málarans velur litasamsetningar sem vísa til íslenskrar náttúru og birtubrigða, en einnig innra sálarlífs, sorgar, gleði, íhugunar, þessi myndverk kalla fram hugarástand áhorfandans.  Það má að einhverju leyti líkja málverkum Kristínar við náttúrufyrirbæri sem gjarnan kalla fram innri íhugun eins og streymandi vatnsyfirborð, logandi eld.“

Kristín á þrjátíu ára útskriftarafmæli frá málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands um þessar mundir. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum bæði á Íslandi og erlendis. Síðasta sýning Kristínar „The Factory“ var síðastliðið sumar í Síldarverksmiðjunni í Djúpavík á Ströndum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com