Gjörningaklúbburinn, Aqua Maria, 2018, Videó, 5.2 Mínútur

Nýjasta testamentið

Sýningaropnun í Hverfisgalleríi 9. febrúar kl. 16.00

Laugardaginn 9. febrúar kl. 16.00 opnar í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu 4-6 sýning Gjörningaklúbbsins / The Icelandic Love Corporation sem ber heitið Nýjasta testamentið. Gjörningaklúbburinn samanstendur af myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur og í sýningartexta eftir Brynhildi Björnsdóttur segir: „Vatnið finnur sér alltaf leið. Í upphafi var vatnið og vatnið var hjá Gyðjunni og vatnið var hún. Og orðið var vatn því allt þarf vatn til að geta orðið. Gyðjan var til í öllum trúarbrögðum heimsins, meira að segja í kristninni í formi Maríu þar til henni var úthýst eftir að Martin Lúther negld yfirlýsingu á kirkjudyr. En jafnvel þá fann hún sér farveg, því vatnið finnur sér alltaf leið, og nú kemur hún upp á yfirborðið að nýju, Aqua María, gyðjan bláa og hvíta, baráttukonan sem endurheimtir tjáninguna og endurskilgreinir orðið.“

Um veröld víða á sér nú stað hreinsun. Milljónir kvenna hafa risið upp og neytt heiminn til að horfast í augu við það misrétti og ofbeldi sem þær eru beittar og þær boða breytingar. #Metoo byrjaði sem dropi á internetið en varð bylgja, alda sem ekki sér fyrir endann á. Konur sendu frá sér sögur sínar og skiluðu í heimahús gerandans. Og þar hriktir í stoðum. Aqua María skilar skömminni og upphefur samþykkið, hún er bláklædd en að þessu sinni í lit vatnsins en ekki himinsins, hin austræna blæja mætir hinu vestræna deri, því hún er allra staða og okkar tíma, hún er ekki klædd til kyrrsetu heldur baráttu, hún hefur verkfærapokann með sínum eigin hamri og nöglum, hún ber ekki að dyrum á húsi meistarans heldur neglir!“

Gjörningaklúbburinn samanstendur af myndlistarkonunum Eirúnu Sigurðardóttur (1971) og Jóní Jónsdóttur  (1972). Gjörningaklúbburinn var stofnaður árið 1996.

Eirún og Jóní útskrifuðust báðar frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1996. Eirún stundaði framhaldsnám við Listaháskólann í Berlín 1996-1998 og útskrifaðist með masters diplómu í hagnýtri jafnréttisfræði frá Háskóla Íslands 2014. Jóní stundaði framhaldsnám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1997-1998 og útskrifaðist með mastersgráðu í kennslufræðum frá Listaháskóla Íslands 2011.

Gjörningaklúbburinn á að baki fjölda einka- og samsýninga í söfnum og galleríum um allan heim þar á meðal ARoS listasafnið í Danmörku, Moma samtímalistasafninu í New York, Kunstahalle Vienna í Austurríki, Schirn Kunsthalle  og samtímalistasafninu Hamburger Bahnhof í Þýskalandi, Amos Anderson listasafninu í Helsinki og Lilith Performance Studio í Svíþjóð. 

Sýningin Nýjasta testamentið stendur til 16. mars 2019. Hverfisgallerí er við Hverfisgötu 4.


Frekari upplýsingar má finna á síðu Hverfisgallerís: www.hverfisgalleri.is

Mynd: Gjörningaklúbburinn, Aqua Maria, 2018, videó, 5:2 mínútur

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com