Image004

Ný sýning í Listasal Mosfellsbæjar

Frá móður til dóttur – frá dóttur til móður er heiti sýningar Jóníar Jónsdóttur og Sigurlínu Jóhannsdóttur sem verður í Listasal Mosfellsbæjar 3. ágúst til 7. september 2018.

Jóní Jónsdóttir er fædd árið 1972 og býr og starfar í Reykjavík. Hún nam myndlist við skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hún hefur haldið fjölmargar listsýningar og unnið við leik- og danssýningar. Jóní er einn af stofnendum Gjörningaklúbbsins sem hefur undanfarin 22 ár unnið með flesta miðla á sviði myndlistar.

Sigurlína er móðir Jóníar. Hún er fædd árið 1952 og býr og starfar í Mosfellsbæ. Lína er fimm barna móðir, hefur unnið á fjölmörgum stöðum í Mosfellsbæ og er þar þekkt andlit. Sýningin er tileinkuð henni.

Um sýninguna segir Jóní: „Við vinnum saman verk sem tengja okkur við minningar okkar úr fortíðinni af henni að teikna og vinna í handverki. Við spinnum þræði og gerum af okkur sjálfsmyndir, leikum okkur og tengjumst hvor annarri í gegnum það sem sameinar okkur utan blóðsins, listina.“

Frá móður til dóttur – frá dóttur til móður er opin á virkum dögum kl. 12-18 og á laugardögum kl. 13-17. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com