Núlllið

Núllið í Bankastræti 0

 

Verið hjartanlega velkomin á opnun sýningarinnar

í Núllinu, Nýló – Bankastræti 0, fimmtudaginn 30. júlí frá kl. 17:00 – 19:00.

Listamennirnir sem sýna í nýuppgerðu Núllinu eru Brynjar Helgason, Ívar Glói Gunnarsson, Logi Leó Gunnarsson og Una Björg Magnúsdóttir. Þau útskrifuðust öll úr Listaháskóla Íslands vorið 2014 og hafa síðan þá unnið sýningar og verkefni saman og hvert í sínu lagi, hér heima og erlendis. Nýlegar samsýningar hópsins eru Svona, svona, svona í Safnahúsinu, Three Amigos í gallerí Úthverfu á Ísafirði og sýning í internetgalleríinu Artclick Daily.

Núllið er opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14:00 – 18:00 og mun sýningin standa til sunnudagsins 30. ágúst.

Facebook viðburður sýningarinnar

Um Núllið
Núllið er nýtt verkefnarými Nýlistasafnsins í Bankastræti 0, 101 Reykjavík. Síðasta vetur ákvað stjórn Nýló að taka rýmið að sér til sýningarhalds og hefur nú skipulagt fjölbreytta sýningadagskrá sem mun teygja sig yfir næsta árið. Listamennirnir sem sýna yfir tímabilið eru innlendir og erlendir og á mismunandi stigum ferils síns.

Síðustu mánuði hafa staðið yfir endurbætur á rýminu sem áður hýsti almenningssalerni beggja megin Bankastrætisins en það eru kvennasalernin sem nú hafa fengið endurnýjun lífdaga. Helgi Sigurðsson arkitekt hannaði salernin sem fyrst voru tekin í gagnið árið 1930. Fyrsta sýningin í Núllinu var opnuð á Sequences myndlistarhátíð í apríl síðastliðnum og var það Ragnar Helgi Ólafsson sem vann verk inn í rýmið. Það var þá með öllu óbreytt en hefur nú verið aðlagað að nýju hlutverki en það er friðað af Minjavernd og því um margt óhefðbundið sýningarrými.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og arkitektastofuna Kurtogpí og styrkt af Best Peace Solutions.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com