Nina Kaputeikn2

NÍNA TRYGGVADÓTTIR – ÚTGÁFUHÓF Í LISTASAFNI ÍSLANDS

NÍNA TRYGGVADÓTTIR – ÚTGÁFUHÓF Í LISTASAFNI ÍSLANDS

Föstudaginn 27. nóvember kemur út bók um listamanninn Nínu Tryggvadóttur. Sama dag verður útgáfu bókarinnar fagnað í Listasafni Íslands kl. 17.

Þar mun Sveinn Einarsson fyrrverandi þjóðleikhússtjóri segja frá Nínu Tryggvadóttur og góðum kynnum þeirra. Sveinn sem er þjóðkunnur fyrir störf sín í leikhúsi, tók sem ungur maður bráðskemmtilegt viðtal við Nínu sem birtist í bókinni Steinar og sterkir litir, Svipmyndir 16 myndlistarmanna  árið 1965, og er viðtalið að finna í heild sinni í bókinni Nína Tryggvadóttir. Annar ritstjóra bókarinnar Ólafur Ingi Jónsson segir frá tilurð hennar og Halldór Björn Runólfsson safnstjóri Listasafns Íslands flytur erindi.

Auk þess stígur kórinn Söngfjelagið á stokk, flutt verður tónlist og léttar veitingar á boðstólum.

Bókin er gefin út í tengslum við yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur (1913-1968) í Listasafni Íslands, NÍNA TRYGGVADÓTTIR – LJÓÐVARP. Í bókinni er merkum ferli Nínu gerð góð skil, lífi hennar og list en Nína var meðal frjóustu og framsæknustu myndlistarmanna sinnar kynslóðar og einn af brautryðjendum ljóðrænnar abstraktlistar. Bókina prýðir fjöldi ljósmynda af verkum Nínu, greinar og viðtöl, á íslensku og ensku.

Ritstjórar eru Birta Guðjónsdóttir og Ólafur Ingi Jónsson. Greinahöfundar Ásdís Ólafsdóttir, Birta Guðjónsdóttir og Ólafur Ingi Jónsson.

Útgáfustjóri Svanfríður Franklínsdóttir.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com