Steinþrykk Nína Óskarsdóttir

Nína Óskarsdóttir | Í gjótu: steinþrykk 2015-2017

Myndlistarmaðurinn Nína Óskarsdóttir mun næstkomandi fimmtudag kl. 17:00 opna einkasýninguna Í gjótu í Ekkisens á steinþrykksverkum sem unnin voru á árunum 2015-2017. Verkin á sýningunni eru öll afrakstur tveggja ára vinnustofudvalar í Bretlandi þar sem Nína sérhæfði sig í steinþrykki. Nína hefur dvalið í Englandi síðustu árin og er þetta fyrsta sýning hennar á steinþrykkjum á Íslandi.

Nína útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2014 og hélt þá strax til Bretlands þar sem hún hóf nám í steinþrykkstækni hjá Leicester Print Workshop. Steinþrykk er prenttækni sem byggir á efnafræði, eðlisfræði og listrænni tjáningu og þá fyrst og fremst teikningu. Mynd er teiknuð beint á kalksteina sem svo eru ættir og myndin prentuð á pappír í þar til gerðri steinþrykks pressu.

Á sýningunni má sjá hvernig Nína hefur nýtt miðilinn á fjölbreyttan hátt til rannsóknar á bæði tækni og myndefni. Mörg verkin hafa skýra tengingu í þjóðtrú Íslendinga og má þar sjá ýmsar náttúruvættir bregða fyrir í annars dulúðlegum teikningum.

Sýningin Í gjótu: steinþrykk 2015-2017 verður opnuð fimmtudaginn 26. apríl kl. 17.00 í Ekkisens í kjallaranum á Bergstaðastræti 25b. Léttar veitingar í boði og eru allir velkomnir. Sýningin stendur uppi til 6. maí.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com