Myrkvi 1

MYRKVI: Vitundarskógurinn | Opnun í Borgarbókasafninu, Grófinni 2. nóvember

Sýning á myndasögu eftir Bjarna Hinriksson verður opnuð á annarri hæð Borgarbókasafnsins, Menningarhúsi Grófinni, laugardaginn 2. nóvember kl. 15.

MYRKVI er flokkur myndasagna fyrir ungt fólk og fullorðna; furðuheimur sem vex upp úr goðsagna- og þjóðsagnaminnum, vísindaskáldskap, ævintýrum og vangaveltum um stöðu mannsins í dag. Myndasögurnar koma út í samnefndu tímariti. Fyrsta heftið kom út í febrúar á þessu ári og í því er lengri saga birt í köflum, auk teikninga ýmiss konar og styttri myndasagna. Fyrsta langa sagan er „Stafamannamorðin“ og fjallar um útrýmingu tungumála á Skerinu, helsta sögusviði MYRKVA.

„Vitundarskógurinn“ er sérstaklega samin fyrir þessa sýningu og sýningarrýmið á annarri hæð bókasafnsins. Hún segir frá atburðum fyrir tíma „Stafamannamorðanna“ og er hluti þeirrar sögu, en stendur einnig sem sjálfstætt frásagnarverk. Völundur lífvélasmiður og lífvélin Héla ganga um í Vestfjarðaþokunni á vit… Vitundarskógarins. Sagan verður í næsta hefti MYRKVA sem kemur út á næsta ári.

Bjarni Hinriksson lauk námi frá myndasögudeild École européenne supérieure de l’image í Frakklandi 1989 og hefur síðan fengist við myndasögugerð. Hann er einn af stofnendum GISP! hópsins sem gefið hefur út samnefnt tímarit síðan 1990. MYRKVI er nýjasta verk Bjarna, en af öðrum myndasögum má nefna „Hvað sagði Óðinn?“ (í samvinnu við Jón Karl Helgason) og „Skuggann af sjálfum mér“. Hann kennir einnig við Teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík.

Bjarni Hinriksson
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com