IMG 0209

Myndlistarsýningin Þjóð, 16. júní

ÞJÓÐ er titill myndlistarsýningar Pálínu Guðmundsdóttur, sem er hluti af hefðbundinni árlegri hátíðardagskrá á Hrafnseyri við Arnarfjörð sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnar kl. 12:00 þann 16. júní. Sýningin stendur til 8. september. Sýningarrýmið er í endurgerðum bæ þar sem Jón Sigurðsson fæddist og ólst upp. Þar er einnig veitingasala.

Pálína Guðmundsdóttir, er starfandi myndlistamaður og búsett á Akureyri. Hún nam myndlist í AKI í Enschede 1982-1987 og fór í framhaldsnám í Jan van Eyck Akademíuna í Maastricht 1987-89.

Hún hefur haldið fjölda sýninga og rekið listagallerí á Akureyri um árabil. Hún tekur einnig þátt í samsýningunni Frá Íslandi sem opnar 7. júlí í Cultureel centrum ‘t Spectrum í Schijndel Meierijstad.

Sú sýning stendur til 1. september.

Þekkir þú þetta fólk?
Málverkin eru unnin út frá ljósmyndum en lokaniðurstaðan er þó ekki endilega mjög lík fyrirmyndinni. Vinnuferlið umbreytir myndunum en þó er haldið í þá tilfinningu sem ljósmyndin framkallaði. Ekki er ólíklegt að þetta séu myndir af einhverjum sem listamaðurinn þekkir eða gamlar myndir af henni sjálfri. Það að myndirnir séu ekki af ókunnugum er mikilvægt til að kalla fram minningar og hughrif í vinnuferlinu, en skiptir ekki lykilmáli fyrir lokaverkið.

Tilgangurinn með myndunum er að leitast við að framkalla tilfinningu eða svip sem áhorfandinn getur tengst, speglað sjálfan sig í eða minnir á einhvern sem hann þekkir.
Litanotkunin er kraftmikil og tjáningarík, beiting litanna er í samspili við tilfinningarnar og orku andartaksins. Litir tala oft til tilfinninganna á annan hátt en orð geta tjáð. Ætlunin er að fanga þá margbreytilegu fegurð sem býr í augnablikinu, efninu og sjálfum litunum.

Á sýningunni er varpað fram litríkri sýn á Íslendinga allra tíma, þjóð þessa lands þar sem lífið býður upp á fjölbreytt róf tilfinninga og tjáningar sem mótar einstaklingana.

Titillinn vísar til 100 ára fullveldisafmælis Íslendinga. Sýndar eru þrjár mismunandi myndaraðir gerðar á með nokkru millibili.

Texti eftir Úlfhildi Dagsdóttur

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com