PHOTO 2018 10 26 17 15 45 (1)

Myndlistarsýning í Bremen, Þýskalandi, 27. okt

Laugardaginn 27. október kl. 18 opna myndlistakonurnar Margrét Rós Harðardóttir og Jónína Mjöll Þormóðsdóttir samsýninguna Haf í Güterbahnhof í Bremen í Þýskalandi. Óður til íslenskrar náttúru er sameiginlegur þráður í verkum þeirra. Verkin eru lituð af minningum að heiman í bland við heimþrá og jafnvel vott af þráhyggju. Báðar vinna þær í margskonar miðla, en Jónína hefur undanfarin ár lagt áherslu á skúlptúrverk og Margrét á innsetningar. Báðar hafa þær Margrét Rós og Jónína Mjöll stundað myndlistarnám í Bremen og tekið virkan þátt í menningarlífi borgarinnar. Jónína hefur búið og starfað í Þýskalandi í yfir 25 ár og er nú búsett í Bremen. Margrét Rós er búsett í Berlín og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Berlínur sem býður uppá ferðir á íslensku um Berlín. Hún hefur verið búsett í Þýskalandi meira og minna 16 ár.

Bremen á sér langa sögu sem verslunarborg. Með öllum þeim fjölda af vöruskiptum sem farið hafa fram í borginni í áranna rás komust íbúarnir í snertingu við nýja menningarheima og má sjá áhrif þess víða um borgina, bæði í ræðu og riti. Sýnt hefur verið fram á að borgin átti í viðskiptum við Íslendinga fyrr á öldum. Þeirri staðreynd verður nú fagnað, tengingin skoðuð og ræktuð í formi menningarlegrar samvinnu. Innan þess ramma er sýningin Haf sett upp. Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Ingmar Lehnemann.

Á opnuninni flytja Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi, og Carmen Emigholz, menningarfulltrúi Bremen, ávörp og Svavar Knútur, ljóðasöngvari, heldur örtónleika.

Nánari upplýsingar um listamennina er að finna á heimasíðunum margretros.com og joninamjoll.com.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com