Gallerý Göng

Myndlistarsýning Huldu Leifsdóttur og bókakynning í Gallerí Göng

Sýning Huldu Leifsdóttur ber yfirskriftina UMBREYTING hefst 15. mars kl 12-14 (strax eftir messu í Háteigskirkju) og upplestur Tapio úr bók sinni, Innfirðir, verður kl 13.00

Finnsk-íslensku listahjónin Hulda Leifsdóttir og Tapio Koivukari eru bæði að koma fram í Gallerí göngum í Háteigskirkju.  

Hulda opnar þar sýningu á 12 abstrakt-málverkum. Sýningin heitir Umbreyting sem vísar í Mysterium tremendum et fascinans, sem við og jörðin göngum í gegnum og sem er í senn heillandi og ógnvekjandi. Hulda hefur verið starfandi listamaður síðan 1986, sýnt bæði á Íslandi og svo í Finnlandi og á Álandseyjum. Hún hefur lært í myndlistarskólanum í Pori, Finnlandi ásamt hjá mörgum lærimeisturum og námskeiðum, m.a. flókaverk og íkonmálun. Abstrakt-málun lærði hún í fjarnámi hjá bandarískri listakonu Nancy Hillis M.D. 

Hulda er fædd 1960 og uppalin á Ísafirði, en þar kynntust þau hjónin og fluttu svo árið 1993 til Finnlands þar sem þau hafa átt heima í Rauma, fæðingarbæ Tapios.

Eiginmaður Huldu er finnskur verðlaunahöfundur Tapio Koivukari, sem er þekktur í heimalandinu fyrir skáldsögur sínar. Hann hefur skrifað sjö sögulegar skáldsögur sem gerast á vesturströnd Finnlands á fyrri öldum, og tvær sögur sem gerast á Íslandi á 17. öld. Af þessum bókum hafa fjórar komið út á íslensku í þýðingu Sigurðar Karlssonar. Þar að auki hefur hann sent frá sér smásögur, leikrit og ljóð og þýtt fjölda íslenskra skáldverka yfir á finnsku. Ljóðabókin Innfirðir er fyrsta bókin sem Tapio skrifar á íslensku. Hér fjallar hann um kynni sín af Vestfjörðum og Íslandi ásamt ferðum um aðra heimshluta uns hann staðnæmist í heimahögum sínum á vesturströnd Finnlands. Í bókarlok ferðumst við síðan með skáldinu um innfirði hugans.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com