Plöntur Kynningarmynd

Myndlistarkonurnar Marta María Jónsdóttir og Kristín Elva Rögnvaldsdóttir opna samsýninguna PLÖNTUR í Gallerí Gróttu 4. apríl – 5. maí 2019

Fimmtudaginn 4. apríl kl. 17.00 opna Kristín Elva Rögnvaldsdóttir og Marta María Jónsdóttir myndlistarsýningu sína „PLÖNTUR“ í Gallerí Gróttu – sýningarsal Seltjarnarness sem er á 2. hæðinni á Eiðistorgi (inni á Bókasafni Seltjarnarness). Sýningin verður opin allan sýningartímann skv. opnunartíma bókasafnins.

Kristín Elva Rögnvaldsdóttir vinnur með teikningar á pappír og panilplötur. Hún vinnur meðal annars út frá hinu hversdagslega í umhverfinu t.d. smádýrum, gróðri og klisjum í manngerðu umhverfi. Kristín Elva vinnur með viðfangsefni sín á óbeinan hátt. Lokaútkoma verka stjórnast af frjálslegri túlkun hennar af viðfangsefninu sem hún vinnur aðallega upp úr skissum. Verkin á sýningunni er öll unnin 2018 og 2019.

Kristín Elva útskrifaðist með diplóma frá Myndlista og -handíðaskóla Íslands 1998 í skúlptúr. Hún fór í framhaldsnám í Kungliga Konsthögskolan í Stokkhólmi og útskrifaðist þaðan með MA gráðu í myndlist árið 2001. Kristín lauk kennararéttindum í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2007. Hún hefur sýnt á söfnum og  galleríum bæði hér heima og erlendis m.a. í  Listasal Mosfellsbæjar, Gallerí Box, Þjóðmenningarhúsi, Gallery Mejan (Svíþjóð) og 1419A (Svíþjóð) Vesturvegg (Skaftafell, Seyðisfjörður), Nýlistasafnið, Trollhettan Konsthall (Svíþjóð), Listasafn Árnesinga, Gula Húsið, Moderna Museet (Stokkhólmi, Svíþjóð) ofl.

—————————

Marta María Jónsdóttir kannar í verkum sínum mörkin á milli teikningar og málverks. Litur skipar stórt hlutverk og ólíkir litafletir, línur og form byggja upp myndflötinn. Hrár ómálaður striginn verður hluti af myndheiminum. Í verkunum blandast ósjálfráð teikning við hið vélræna og vísindalega. Línan og teikningin er notuð sem efnisleg bygging myndanna, sem eru lagskiptar og marglaga og saman mynda þær eina heild. Marta María nam málun í Myndlista-og Handíðaskóla Íslands og útskrifaðist með Mastersgráðu í myndlist frá Goldsmiths College í London árið 2000. Hún hefur einnig lokið diplómanámi í hreyfimyndagerð frá London Animation Studio, Central Saint Martins College of Art and Design. Hún hefur tekið þátt í samsýningum í Kling og Bang, Listasafni ASÍ, Hafnarborg, Kjarvalstöðum, Listasafni Reykjanesbæjar og haldið einkasýningar í minni sýningarsölum. Nýlega lauk einkasýningu hennar Umrót í Sverrissal í Hafnarborg

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com