Myndlistarhátíðin Sequences VII hefst á föstudaginn

Styrmir-Orn

Myndlistarhátíðin Sequences VII hefst með pomp og prakt föstudaginn 10. apríl og stendur til 19. apríl nk. Hátíðin, sem haldin er annað hvert ár, er eina hátíðin á Íslandi sem einblínir eingöngu á myndlist og hefur það að markmiði að skapa vettvagn fyrir framsækna myndlist. Lögð er sérstök áhersla á tímatengda list á borð við gjörninga, hljóðlist og vídjólist.

Opnunarhátíðin hefst í Kling&Bang föstudaginn 10. apríl kl. 17:00 en þar opnar sýning með verkum Carolee Schneemann, sem er heiðurslistamaður Sequences VII. Schneemann er ein af framsæknustu myndlistarmönnum samtímans og í hópi þeirra listamanna sem umbreyttu skilningi samfélagsins á myndlist. Hún er einna þekktust fyrir feminíska gjörninga sína en í þeim tekst hún á við boð og bönn samfélagsins gagnvart líkamanum, kynhneigð og birtingu kynjanna. Á sýningunni í Kling&Bang verða m.a. ljósmyndir af verkinu Eye Body sem Erró tók fyrir Schneemann og upptaka af viðtal við hana sem tekið er af listfræðingnum Hans-Ulrich Obrist.

Samhliða sýningu Schneemann mun Hanna Kristín Birgisdóttir opna sýningu í Kling&Bang og mun hún flytja gjörning á opnuninni. 

Á föstudeginum mun Ragnar Helgi Ólafsson einnig sýna nýtt verk í nýju sýningarrými Nýlistarsafnsins, Nýló Núllið. Nýló Núllið er staðsett í Bankastræti 0 þar sem áður var almenningsklósett. Einnig mun Sequences Baby Doll barinn opna í Mengi á Óðinsgötu.

Opnunarhátíðin mun standa yfir til sunnudagsins 12. apríl og munu sýningar Sequences VII teygja anga sína út um alla borg. 9 listamenn munu sýna í JL húsinu þar sem áður var verslunin Nóatún, opnuð verður sýning í Nýlistarsafninu í Breiðholti, boðið verður uppá reglulega gjörninga á Hótel Holti, boðið verður til veislu úti á Granda og svo má lengi telja. Allar sýningarnar standa til 19. apríl. Samhliða opinberri dagskrá Sequences VII fer fram fjölbreytt og þéttskipuð off-venue dagskrá.  

Dagskrá Sequences VII og nánari upplýsingar um sýningar og listamenn má einnig finna á www.sequences.is

S000_merki2015_web_fb

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com