68c4c305 9560 42b7 9eb3 B3b4597a5d15

“Mynd af þér” Sigurður Atli Sigurðsson í Skaftfelli

Mynd af þér eftir Sigurð Atla Sigurðsson opnar næstkomandi laugardag, 26. nóv, kl. 16:00 í sýningarsal Skaftfells. Sýningin er fyrsta einkasýning Sigurðar á Íslandi eftir framhaldsnám og sýningarstjóri er Gavin Morrison. Mynd af þér er einnig fyrsta sýningin í nýrri sýningarröð Skaftfells sem er viðleitni miðstöðvarinnar til að styðja við unga listamenn og veita þeim rými til að sýna verk sín í gildandi samhengi.

Sigurður hefur áður sýnt í Skaftfell en hann kom til Seyðisfjarðar árið 2011 sem nemandi á námskeiðinnu Vinnustofan Seyðisfjörður. Námskeiðið hefur verið haldið árlega síðan 2001 og er á vegum Dieter Roth Akademíunar fyrir útskriftarnema úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Hvaða þýðingu hafði það fyrir þig að taka þátt í námskeiðinu á Seyðis árið 2011?
Þegar ég tók þátt í námskeiðinu á Seyðisfirði 2011 var ég nýkominn frá Marseille í fyrsta skiptið og það voru mikil viðbrigði að koma úr látunum og hitanum í kuldann og þögnina. Ég fór mikið að hugsa um hvernig það er hægt að búa til list hvar sem er. Skaftfell fannst mér strax heillandi fyrir einmitt þetta og mér fannst bærinn allur bjóða uppá svo mikla sköpun. Dieter Roth akademían bauð strax upp á möguleika en ég fékk að bjóða ókunnugu fólki á sýninguna, með flugi og gistingu innifalinni. Ég kynntist fyrst innrömmun á Seyðisfirði en nú rek ég meðal annars innrömmunarverkstæði. Á árunum eftir námskeiðið hef ég unnið meira með stofnendum Dieter Roth akademíunnar. Ég kenndi námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík sem fór að hluta til fram á sýningu Jan Voss og Boekie Woekie í Nýlistasafninu og byggði hús með Gunnari Helgasyni. Það eru mikil forréttindi að fá að koma aftur fimm árum seinna að sýna hér.

Hverju mega gestir búast við á sýningunni Mynd af þér?
Á sýningunni verða hátt í hundrað verk sem blanda saman silkiþrykki og teikningu með kúlupenna en litirnir ákvarðast af litapallettu kúlupennana. Þessi verk eru byggð á teikningum sem ég er búinn að safna í nokkur ár úr skrifstofuvörubúðum þar sem viðskiptavinum býðst að prófa pennana. Þessa liti nota ég síðan í bakgrunna fyrir ljósmyndir sem ég tók af viðskiptavinum Rakarastofunnar á Klapparstíg. Einnig verður til sýnis verk sem er í eigu Frakklandsforseta sem hann fékk að gjöf í gegnum Franska sendiráðið á Íslandi á síðasta ári. Sýningin ber nafnið Mynd af þér þannig að ætli gestir megi ekki búast við að sjá mynd af sjálfum sér? 

Sigurður Atli Sigurðsson er búsettur í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2011 og fór í kjölfarið í framhaldsnám til Frakklands. Þar kláraði hann MA frá École Supérieure des Beaux-Arts de Marseille. Sigurður hefur verið ötull í sýningarhaldi frá útskrift og ber þar helst að nefna:  Do Disturb – Palais de Tokyo, París 2016,  Subversion of the Sensible – Fabbrica del Vappore – Mílanó, 2014,  Feldstarke – Kyoto Art Center – Kyoto, Japan, 2014 og Sleeper Horses – í samstarfið við Erin Gigl (US) – Gallerí Úthverfa, Ísafjörður, 2014.  Undanfarið hefur Sigurður Atli stundað kennslu við Myndlistaskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands þar sem hann hefur umsjón með prentverkstæði skólans.

Opnunartímar:
Sýningarsalur Skaftfells er opin mán-fös frá kl. 15:00-21:00 og lau-sun kl. 14:00-21:00.
Mynd af þér stendur til 8. janúar 2017.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com