IngunnFjola

Multis – Listamannaspjall / Guðjón Ketilsson og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir

Laugardaginn 16. nóvember kl. 15 munu listamennirnir Guðjón Ketilsson og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir fjalla um verk sín sem unnin voru fyrir Multis.is og eru nú til sýnis í húsnæði Multis í Hjartagarðinum við Laugarveg 19.

Verk Guðjóns ber titilinn Logn. Skúlptúrinn er 10 x 15 cm. að stærð, samsettur úr tveimur einingum sem steyptar eru í svartan steinleir og festar á vegg.

Verkið er gert í fimm árituðum eintökum en útfærslurnar eru þrjár.

Myndlistarlegur bakgrunnur Guðjóns Ketilssonar á rætur sínar í hugmyndalist og það er honum mikilvægt að endurnýja sífellt vinnuaðferðir sínar í listinni og finna nýjar leiðir til sköpunar. Þannig er þetta verk afsprengi nýlegrar vinnu hans með brenndan leir.

Fjall úr steinleir; í því felst nokkurskonar endurgjöf til náttúrunnar. Samhverfa fjallsins við spegilmynd sína skapar landslag innra með okkur, form sem er handan hins snertanlega, á stefnumóti heiðs himins við spegilslétt vatn.

Mín hönd, þín hönd er þrívítt málverk framleitt í einungis fimm eintökum. Með hverju verki leggur Ingunn Fjóla til handmálaðan viðarramma ásamt fyrirmælum sem eigendur verkanna fylgja og fullgera þannig verkin sjálfir.

Eins og í mörgum fyrri verkum notar Ingunn Fjóla akrýlmálningu, bómullarþráð og tré sem efnivið til að brjóta upp flatan, tvívíðan heim málverksins. Gulur ferningur, sem eigandinn málar sjálfur, þjónar hlutverki bakgrunns og teygir þannig verkið inn í rýmið sem það er sett upp í. Með hverju eintaki fylgir örk af gagnsæjum pappír ásamt leiðbeiningum um hvernig brjóta eigi pappírinn. Með fyrirmælunum reiðir Ingunn Fjóla sig á samvinnu við eigendur verkanna, en skilur jafnframt eftir rými fyrir persónulega túlkun og ákvarðanatöku þeirra, sem gerir hvert eintak fjölfeldisins einstakt.

//

Multis er vettvangur fyrir samtímalist sem býður upp á listaverk eftir virta og þekkta myndlistamenn sem starfa á íslenskri listasenu sem og alþjóðlegum vettvangi. Verkin eru til í takmörkuð upplagi, til sölu á multis.is.  Multis er eini vettvangurinn á Íslandi sem býður upp á sýningarstýrð fjölfeldisverk eftir íslenska samtímalistamenn. Multis opnaði þann 7. nóvember útgáfu númer 2. á verkum myndlistarmanna sem kynntir eru á sýningu og vefsíðu verkefnisins. Þar sem markmið Óskarsdóttir Spanó er að gera myndlist aðgengilega almenningi og tengja fagvettvang myndlistar atvinnulífinu, verða útgáfur Multis aðgengilegar fyrirtækjum og einkaaðilum sem áhuga hafa á því að styðja við og taka þátt í myndlistarsamfélaginu á Íslandi.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com