LogiBjarnason.TakkVigdis

Midpunkt: Sýningin Takk Vigdís opnar 5.september

Sýningin “Takk Vigdís” opnar nk laugardag 5. september, kl 15:00 í Midpunkt. 

Listamaðurinn Logi Bjarnason stendur að sýningunni. 

“Takk Vigdís” saman stendur af grindverki sem var í eigu Vigdísar Finnbogadóttur. 

Sýningin stendur til 27. september 2020. 

Logi Bjarnason er myndlistamaður sem fæst við að skapa meistaraverk og athyglisverð viðföng. Í þessari sýningu er tekist á við spursmál um tíma og rými, sögulegt samhengi, og hvað við horfum á.

Logi hefur sýnt víða bæði erlendis og hérlendis. Hann er einnig sýningarstjóri á Plan-B festival og formaður myndhöggvarafélagsins.

Logi Bjarnason

Texti úr sýningarskrá

Í frægum fyrirlestri árið 1926 um hvað teljist meistaraverk sagði skáldkonan Gertrude Stein að engin sé nokkurn tímann á undan tíma sínum, við einfaldlega sköpum okkar eigin tíma og vonumst til að aðrir viðurkenni hann. Það sem aðskilur kynslóðir og tímabil í listasögunni er hvað okkur þykir athyglisvert að horfa á, það sem þykir athyglisvert breytist með tímanum en enginn þarf nokkurn tímann að taka fram að eitthvað sé athyglisvert. Á miðöldum þótti landslag ekki sérstaklega athyglisvert en í nítjándu aldar rómantískum málverkum tröllríður það öllu svo dæmi sé nefnt, fegurðin er í auga viðtakandans en við þurfum ekki að segja það upphátt, allir vita í dag að landslag er fallegt.

Þetta dæmi fær mig til að hugsa um söguna sem ég heyrði einu sinni um bónda sem botnaði ekkert í málverkunum hans Kjarvals, honum þótti hraunið ljótt af því að það var svo lélegt ræktarland að ekki einu sinni kindur gátu verið þar á beit. Í dag er hraunið sennilega verðmætara en mest allt beitiland, í það minnsta hefur hótelrekstur verið arðbærari en sauðfjárrækt síðustu ár þar til Covid skarst í leikinn, og sennilega mun hraunið, jökullinn og eldfjöllin þykja verðug viðfangsefni fyrir listamenn svo lengi sem landslag þykir fallegt. Það er þó ekki sjálfgefið, og eflaust sumir sem deila þessum samtíma með okkur sem líta svo á að landslagið eigi ekki lengur erindi sem viðfang athygli okkar.

Sem leiðir mig að viðfangsefni þessarar sýningar, grindverkinu. Hví skyldi þetta vera athyglisvert?

Augljósa svarið er að þetta rými er ætlað til sýninga á athyglisverðum viðföngum. Listamaðurinn velur hvað þykir nægilega athyglisvert, sýningarstjórinn samþykkir eða hafnar verkinu, veitir því tíma eða ekki innan rýmisins, og við förum í rýmið á vissum opnunartímum til að virða fyrir okkur hvað þessi hópur hefur úrskurðað að sé athyglisvert.

Nokkuð sem Gertrude Stein sagði að væri síbreytilegt eftir kynslóð og ítrekaði að listamaðurinn væri útlagi allt þar til hann væri orðinn klassík. Hún hafði sjálf séð á sínum tíma fyrstu „fundnu hlutina,“ til sýnis, hún deildi tíma með og studdi fjárhagslega Picasso, sem hugsanlega var fyrsti listamaðurinn með „objet trouve“ eða „found object“ til sýnis 1912. Hann er þó ekki listamaðurinn sem almennt er álitinn frumkvöðull þessarar listtegundar heldur er það yfirleitt Marchel Duchamp, sem nokkrum árum síðar var með röð „readymade“ verka til sýnis, þar með talið fræga klósettskál sem í dag er talin hafa verið verk barónessunar Elsa von Freytag-Loringhoven, (eins og fram kom í bréfi Duchamp til systur sinnar árið 1917, þá skrifar hann að vinkona hans hafi undir dulnefninu R.Mutt lagt fram pissuskál sem verk). En hver svo sem valdi klósettskálina sem verðugt viðfang athygli þá var það útlagi, manneskja sem við gætum sagt að hafi verið á undan sínum tíma, en Stein myndi meina að væri manneskja sem hefði krafist þess að við samþykkjum hennar tíma.

En hvað var framboð Vigdísar Finnbogadóttur til forsetaembættis?

Var það á undan sínum tíma eða barn síns tíma?

Ef Vigdís hefði ekki unnið kosningarnar gætum við eflaust lesið í sögubókum að íslenska þjóðin hafi ekki verið reiðubúin fyrir kvenkyns forseta. Að Vigdís hefði verið of snemma á ferð. Sem hún vitaskuld var, alveg þar til annað kom í ljós.

Grindverkið sem hér er til sýnis var valið af listamanninum og söguleg tenging þess við Vigdísi Finnbogadóttur gerir það athyglisvert. Nærri allt sem fyrsti lýðræðislega kjörni kvenkyns þjóðhöfðingi átti hefur svo augljóst sögulegt vægi að það þarf varla að taka það fram. Ekki frekar en að það þarf að skýra út fyrir ykkur af hverju mynd af jökli eða fjalli sem miðaldamaður hefði fúlsað við, ætti að vera athyglisverð í okkar augum. En með því að sýna svona hlut þá færi Midpunkt sig hættulega nálægt því að fara inn á svið þjóðminja, en hvað er slíkt sögusafn svo sem annað en samansafn ósköp hversdagslegra hluta úr fortíðinni sem einhver hefur fundið og síðan krafist þess að við gefum tíma okkar í? Tíma sem að samtímamenn þessara muna hefðu aldrei gefið þeim.

Því meira sem við hugsum um það því hlægilegri verður þessi leikur auðvitað. Ef sautjándu aldar stúlka myndi heyra að askurinn sem hún æti súrmetið úr væri til sýnis fyrir þúsundir áhorfenda á hverju ári í ríkisreknu safni myndi hún eflaust hlæja að okkur. Ef við færum aftur í tímann á fund Vigdísar Finnbogadóttur þar sem hún væri ung kona í námi í París og skýrðum fyrir henni að dag einn yrði grindverk í hennar eigu til sýnis í Hamraborginni myndi hún eflaust hlæja líka.

Engu að síður hefur Logi Bjarnason sótt þetta grindverk úr sarpi tímans og skráð það á spjöld listasögunnar. Hann hefur krafist þess að við viðurkennum hann sem samtímalistamann og þetta verk sem samtímalist. Það er ekki úr framtíðinni, það er ekki úr fortíðinni, það er hér og nú, glerjað eins og gluggar Gerðar Helgadóttur, og einungis tíminn mun leiða í ljós hvort um útlagaverk eða klassík er að ræða. Hvort þetta sé verk augnabliksins eða verk allra tíma.

Snæbjörn Brynjarsson, sýningarstjóri

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com