Shapeless

Midpunkt: Shapeless Vibrations – 4. til 26. júlí 2020

Opnun laugardaginn 4. júlí kl 16:00

Midpunkt

Hamraborg 22 Kópavogur
Opið á fimmtudögum og föstudögum kl. 14-17 og eftir samkomulagi
Lokun sunnudaginn 26.júlí

Shapeless Vibrations er samsýning listakvennanna Claire Paugam og Valgerðar Ýrar Magnúsdóttur.
Innsetning þeirra skoðar formleysu, viðfangsefni sem þær báðar kanna í gegnum listsköpun sína. Að segja að hlutur sé formlaus getur virkað þversagnakennt, að hlutur hafi ekki form þegar allir hlutir hafa form. Hvers vegna að tala þá um formleysu? Hið formlausa er síbreytilegt, óskýrt og erfitt að fanga. Allt sem lifir mun óhjákvæmilega rýrna og missa form sitt. Formleysa er inngangur inn í hið óþekkta, hlið á umhverfi okkar sem forðast að fara eftir reglum. Við teljum að með því að vinna með formleysu sé okkur kleift að endurskoða og enduruppgötva umhverfi okkar. Í stað þess að leitast við fullkomnun og fylgja rökhugsun um hvernig hlutir passa saman er það spennandi að kanna hvernig ólíkir hlutir úr umhverfi okkar
mætast á óvæntan hátt.

Claire og Valgerður kynntust þegar þær stunduðu nám við Listaháskóla Íslands og er Shapeless Vibrations fyrsta samstarfsverkefni þeirra.

Valgerður Ýr Magnúsdóttir lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og stundar nú meistaranám í myndlist við Listaháskólann í Þrándheimi í Noregi. Hún hefur jafnframt stundað nám í myndlist við The Glasgow School of Art og Haute école des arts du Rhin í Strasbourg í Frakklandi. Árið 2018 hlaut Valgerður styrk úr Styrktarsjóði Guðmundu Andrésdóttur. Valgerður vinnur með fjöldaframleidda og fundna hluti úr nærumhverfi sínu sem hún umbreytir með malerískum aðferðum. Hún leitast við að búa til innsetningar þar sem marglaga efnislegar tilraunir mynda veröld sem vísar í bæði raunveruleikann og heim fantasíu.
http://www.valgerdurmagnusdottir.com

Claire Paugam er frönsk listakona (f.1991) sem vinnur þverfaglega og býr í Reykjavík. Eftir útskrift úr MFA-námi Listaháskóla Íslands 2016 vann hún sem aðstoðarkennari við Listaháskólann á Réunion-eyju út af austurströnd Afríku. Claire hefur haldið sýningar á ýmsum stöðum á Íslandi og erlendis svo sem á Moskvutvíæringnum fyrir unga listamenn (2016) og á Ljósmyndahátíð Íslands í Gerðasafni (2018). Árið 2019 settist Claire í stjórn Nýlistasafnsins.
Í list sinni fæst Claire einkum við þrjú samofin atriði: Sambandið milli innra og ytra byrðis mannslíkamans í gegnum op á honum, formlausa hluti sem eru efni sem reynir að losna úr viðjum og sjónræna samsvörun liffæra og steintegunda. Listakonan véfengir aðferðir okkar við að skilgreina náttúrulega hluti með því að fara yfir þær línur sem við drögum á milli þeirra. Útreiknuð framsetning og áferð gerir henni kleift að finna dulið samhengi hlutanna. Kjarninn í vinnu hennar er að varpa fram spurningum
um efnið með því að stilla viðkvæmri reynslu upp gegn hefðbundnum kerfum reglna og túlkunar.
https://clairepaugam.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com