Midpunkt Sign V2 Copy 1

Midpunkt: Nýr listasalur opnar í Hamraborg

Nýr listasalur hefur opnað í Hamraborg 22, og laugardaginn 27. október verður því fagnað með sýningunni Efahljómur/Sounds of doubts sem hefst klukkan fjögur. Húsið verður opið fyrir gesti og gangandi, boðið upp á drykki og veitingar, en gestum mun gefast færi á að virða fyrir sér sameiginlegt verk tónskáldsins Þuríðar Sigurðardóttur og myndlistakonunnar Jeannette Castioni.

Rekendur listarýmisins, Midpunkt, sem mun verða með fjölbreytta, tilraunakennda og alþjóðlega dagskrá í miðju Kópavogs eru Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson og Snæbjörn Brynjarsson. Snæbjörn starfar sem rithöfundur, hefur sýnt á alþjóðlegum listahátíðum í Evrópu og Ameríku á vegum Nanterre Amandiers leikhússins í París og verið leiklistarrýnandi menningarinnar á RÚV síðastliðin tvö ár. Ragnheiður lærði dans við listaháskóla Íslands og lauk meistaranámi við háskólann í Gautaborg árið 2013 í public space performance (eða listsköpunar innan almenningsrýmis). Hún er einnig stofnmeðlimur í danshópnum Hreyfiþróunarsamsteypan. Þess má einnig geta að þegar hún var unglingur afgreiddi hún bland í poka fyrir aftan glerborðið í sjoppunni Rebbinn, en listasalurinn er einmitt staðsettur í sama rými sú sjoppa var fyrir rúḿum áratug.

Midpunkt setur markið á að flytja inn list hvaðanæva að og gera Hamraborgina að nýjum miðpunkti í listalífi Íslendinga. Listin verður ei jaðarsett lengur.

Um Efahljóm:

Getur það varpað ljósi á skapgerð, hlutverk eða sjálfsímynd okkar að lesa í hversdagsleg fyrirbæri umhverfis okkur eða rýna í og eiga samtal um einföld fagurfræðileg tákn? Er hægt að finna tóntegund ákveðins þjóðernis, einhvers konar “hljóðsál”? Má skoða athafnir daglegs lífs þannig að einfaldar gerðir, sem í minninu virðast raunverulegar, geti reynst vera misminni eða jafnvel uppspuni?
Hljóð- og myndverkið Sounds Of Doubts – samstarfsverkefni Jeannette Castioni myndlistarkonu og Þuríðar Jónsdóttur tónskálds – er viðleitni til að fást við þessar spurningar.

Á Cycle 2017 skipulögðu listakonurnar vinnustofu, Efahljómur–Workshop. Þar mættu þrír hópar, hver af sínu norræna þjóðerni: íslenskur, færeyskur og grænlenskur. Atferli þeirra var skoðað með því að setja þá í ólík hlutverk og aðstæður, ýmist sviðsettar eða raunverulegar. Þetta raunveruleikhús gaf þeim tækifæri til að athuga hvernig náttúrulegar og menningarlegar rætur hafa áhrif á upplifun þátttakenda.

Tungumálið og skapandi hlutverk minnisins var krufið á músíkalskan og sjónrænan hátt. Ólíkar senur, sviðsettar eða raunverulegar, voru myndaðar og hljóðritaðar, hver þeirra einkennandi fyrir ákveðna sjálfsímynd eða hlutverk. Mynd- og hljóðefnið af vinnustofunni var svo notað til frekari úrvinnslu og uppsetningar á margmiðlunarverkinu Sounds of Doubts.

Samstarf listamannanna sem slíkt felur í sér rannsókn, ekki síður en verkið sjálft, en viðteknar hugmyndir, tengdar tónsmíðalegum aðferðum annars vegar og sjón- og margmiðlunartengdum aðferðum hins vegar, eru að sjálfsögðu dregnar í efa.

Efahljómur er fyrsta verkefnið sem er sýnt í Midpunkt, nýju sýningarrými í Hamraborg 22.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com