Margret Blöndal

Margrét Blöndal í Gallerí Úthverfu

Margrét H. Blöndal sýnir í Gallerí Úthverfu.

Fimmtudaginn 23. júní 2016 verður opnuð sýning Margrétar H. Blöndal í Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði.

Verk Margrétar eru hárfínar innsetningar þar sem hún nýtir sér fundið efni; þræði, prik, efnisbúta, plast og brot af hinu og þessu. Innsetningar hennar eru fagurfræðilegar perlur, þrungnar spennu og mystík. Margrét hefur dvalið á Ísafirði undanfarna daga og unnið verkin inn í rými gallerísins. Sýningin ber heitið BORÐ – en borð getur m.a. átt við auða bilið fyrir ofan vökva í íláti.

Margrét H. Blöndal er Reykvíkingur og stundaði myndlistarnám á Íslandi og í Bandaríkjunum á árunum 1986-1997. Hún hefur tekið þátt í sýningum víðsvegar um landið og verk hennar hafa verið valin til sýningar á mikilvægum sýningum fyrir samtímalist víða um heim. Margrét hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín þ.á.m. Richard Serra verðlaunin. Margrét var valin, ásamt Agli Sæbjörnssyni og Gjörningaklúbbnum til að vinna tillögur fyrir framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum 2017.

http://www.margrethblondal.net/
http://i8.is/artist/margret-h-blondal/shortbio/

Sýningin í Gallerí Úthverfu opnar kl. 15 á fimmtudaginn, boðið verður uppá léttar veitingar og eru allir velkomnir.

Á fimmtudaginn verður einnig opnuð listaverkabókabúð í tengslum við Gallerí Úthverfu. Þar má finna bókverk og bækur með verkum íslenskra listamanna. Fyrr á þessu ári kom út hjá bókaútgáfunni Crymogea bókin DRAWINGS með verkum Margrétar sem gefin var út í tengslum við sýningu hennar í Gallerí i8. Bókin verður til sölu í listaverkabókabúð Úthverfu.

Starfsemi Gallerís Úthverfu er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Ísafjarðarbæ.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com