Untitled 1123

Málverk

Lokadagur sýningar Guðjóns Ketilssonar, Málverk, er laugardagurinn 9. apríl. Það er opið kl 13 – 17 fram að helgi og kl 14 – 17 á laugardaginn. Galleríið er lokað Sunnudag.
Málverk nefnist önnur einkasýning Guðjóns Ketilssonar í Hverfisgallerí.

Titillinn tengist þeim lestri er báðar myndraðir sýningarinnar opna fyrir; Í annarri myndröðinni koma fyrir málningarpallettur Guðjóns, diskar og skálar sem hann hefur blandað liti á og síðan geymt á vinnustofu sinni, frá miðjum 10. áratugnum til ársloka 2015 og þá pússað niður með sandpappír. Við pússunina sjást málningarlögin og lag fyrir lag má lesa litanotkun listamannsins við gerð verka á lengstum hluta ferils síns, líkt og lesa má jarðsögu úr jarðlögum lands.
Í hinni myndröð sýningarinnar koma fyrir verk þar sem listamaðurinn vinnur með nítján af eigin málverkum, sem unnin voru á 9. áratugnum, auk texta sem lýsir því sem fyrir augu ber í hverju verki. Í raun þyrfti að nota hér fortíð sagnarinnar og segja; lýsir því sem fyrir augu bar, því viðkomandi málverk hafa nú verið skorin niður í þunnar ræmur og hefur listamaðurinn límt þær þétt saman, svo ekki er lengur hægt að sjá myndina á upprunalega málverkinu. Eftir stendur málverk án myndar og texti er stendur fyrir þá mynd sem eitt sinn var.

Endilega kíkið við – Guðjón verður á svæðinu.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com