K&B

Lucky me? – Lucky 3 í Kling & bang

Verið velkomin á opnun sýningarinnar Lucky me?  næstkomandi laugardag 30. nóvember kl. 17 í Kling & bang, Grandagarði 20.

Lucky 3 er listahópur stofnaður af Darren Mark, Dýrfinnu Benitu Basalan og Melanie Ubaldo; íslenskir listamenn af filippeyskum uppruna.

Þessi sýning er tileinkuð nostalgískri túlkun á filippeyskri menningu. Meðlimir listahópsins Lucky 3 hafa öll ólíkan bakgrunn en eiga það sameiginlegt að hafa alist upp við fátækt og upplifað rasisma vegna uppruna síns. Þau vilja nota forréttindi sín, það að geta tjáð sig í gegnum listina til þess að varpa ljósi á stöðu filippeyskra innflytjenda hér á landi. Þau munu takast á við viðfangsefnið með mismunandi miðlum, þ.á.m gjörningum, myndböndum, fatahönnun, málverkum, skúlptúrum, hljóði ofl. til þess að upphefja filippeyska menningu og fagna veru filippeyskra innflytjenda hér á landi.

Von þeirra er að það verði lærdómsríkt fyrir áhorfendur sýningarinnar, sem eru að mestu leyti hvítir, að svipast inn í raunveruleika filippeyskra íbúa á Íslandi.

Þeim þykir jafnframt mikilvægt að opna dyr fyrir minnihlutahópa á Íslandi inn á listasenuna hérlendis og vonast til þess að þessi sýning verði til þess að við munum sjá fleira af fólki úr minnihlutahópum sækja í myndlist og upplifa sig sem hluta af umræðunni.

Mabuhay og Salamat

Um listamennina:

Darren Mark(f. 1993) útskrifaðist með BA próf í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2017. Hann flutti til Íslands frá Filippseyjum aðeins átta ára gamall ásamt fjölskyldu sinni. Hann vinnur aðallega við fatahönnun, hann fæst við að taka í sundur og setja flíkur saman til þess að endurnýta og betrumbæta þær og búa til nýjar flíkur. Darren hefur áður sýnt á Dutch Design Week í Eindhoven, Designer’s Nest – Copenhagen Fashion Week  og nýlega á Hönnunarmars í Reykjavík.

Dýrfinna Benita Basalan (f. 1992) vinnur sem myndlistarmaður en er líka þekkt sem tónlistarkonan Countess Malaise. Dýrfinna er fædd og uppalin á Íslandi og á íslenskan föður. Hún útskrifaðist með BA í myndlist og hönnun frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2018. Dýrfinna vinnur út frá mörgum miðlum og takast verk hennar oft á um sjálfsmynd, samfélag og einsemd. Dýrfinna er partur af listamannahópnum The Blue Collective, hópur alþjóðlegra listamanna sem eru hinsegin og af jaðarsettum kynþáttahópum. Með þessum listahópi hefur Dýrfinna m.a. sett upp sýningar í Juliette Jongma gallerí, Amsterdam og í Decoratillier í Brussels í samstarfi við Living Leaving Dacota. 

Melanie Ubaldo (f. 1992) flutti til Íslands á unglingsárum sínum ásamt fjöldskyldu sinni. Hún útskrifaðist með BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Í verkum Melanie er myndefni og texti órjúfanleg heild. Sjá má sundurleit málverk sem innihalda texta sem minnir helst á veggjakrot. Textinn vísar í hennar eigin reynslu af fordómafullri hegðun annarra í hennar garð. Verkin afhjúpa valdið sem felst í fordómum og eyðandi áhrif þeirra á þolendur. Melanie hefur áður sýnt í Kling og Bang og hefur tekið þátt í öðrum hópsýningum hérlendis og erlendis til að mynda í Hafnarborg, Gerðarsafn, hátíðinni Cycle – Music and Art festival og nýlega í Pavilion Nordico í Argentínu. Jafnframt er verk hennar að finna í safneign Listasafns Reykjavíkur. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com