Unnamed

Loji Höskuldsson – Garður meðalmennskunnar

Loji Höskuldsson – Garður meðalmennskunnar
Laugardaginn 12. maí kl. 16:00-20:00
Gallery Port
Laugavegur 23B

Loji Höskuldsson (f. 1987) er íslenskur listamaður. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2010.
Sýningin Garður meðalmennskunnar opnar í Gallery Port, laugardaginn 12. maí, kl. 16. Léttar veigar í boði.

Myndlist hans kannar hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi, tækni sem hann hefur þróað og unnið með mömmu sinni, Jóhönnu Viborg, en hún er saumakona og mikill grúskari þegar kemur að útsaum. Í útsaumi Loja er viðfangsefnið fengið úr hversdagsleikanum, plöntur, ávextir og hlutir sem finnast á heimilum.

Um sýninguna segir Loji sjálfur:

“Garðar við heimili eru staðir þar sem náttúran er tamin í borginni. Óreglu náttúrunnar er komið í fastar skorður þar sem röð og reglur fara allt í einu að ráða ferðinni. Í því regluverki athafnar maðurinn sig svo. Sumir koma fyrir heitum pottum, sumir elda sér mat á góðviðris dögum. Aðrir gróðursetja matjurtir á meðan aðrir sinna garðinum sínum bara ekki neitt.

Mamma óskaði sér alltaf að eignast garð með engu í, bara gras sem þyrfti bara að slá nokkrum sinnum á hverju sumri, ekkert vesen, engir runnar sem söfnuðu í sig rusli, engin beð sem þyrfti að reyta, enginn sólpallur sem þyrfti að bera á, engin tré sem myndu skyggja á sól nágrannans. Sannkallaður garður meðalmennskunnar, en afhverju skyldi hún endilega vilja hafa garð?”

Loji hefur spilað með fjölda hljómsveita síðustu árin, Sudden Weather Change, Wesen, IBM, Prins Póló og undir eigin nafni. Hann hefur spilað á Airwaves og Sónar Reykjavík, og komið fram víða í Evrópu.

Loji hefur hefur skrifað tvö útvarpsleikrit, Eftir súpuna sérðu liti hafsins (2010) og Hafið hefur 1000 andlit (2015) og tekið þátt í dansverkum, sem dansari og danshöfundur.

Loji hefur mikinn áhuga á íslenskum módernista arkitektúr, sérstaklega verkum eftir Sigvalda Thordarson. Hann hefur unnið að rannsókn og skrásetningu á verkum Sigvalda, sem enn stendur yfir og hyggur á útgáfu. Loji heldur úti Instagram síðu þar sem fylgjast má með rannsókn hans á húsum Sigvalda, sjá nánar á www.instagram.com/lojiho/
Jafnframt því að opna einkasýningu sína í Gallery Port á laugardaginn, tekur Loji einnig þátt í samsýningu á vegum Listar án landamæra með Kristjáni Ara Ellertssyni sem opnar á föstudaginn í Listasal Mosfellsbæjar.

Hér má sjá viðburð fyrir sýninguna á Facebook.
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com