LjósmynReykjavíkur

Ljósmyndin sem listgrein – erindi Brynju Sveinsdóttur

Rafræn föstudagsflétta Borgarsögusafns Reykjavíkur

Ljósmyndin sem listgrein er yfirskrift erindis um stöðu ljósmyndarinnar sem listgreinar og birtingarmynd hennar í listsýningum frá 1970 til samtímans. Erindið flytur Brynja Sveinsdóttir en það er hluti af Föstudagsfléttu Borgarsögusafns og fer fram á Facebooksíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur föstudaginn 8. janúar kl. 11:00-11:50.

Erindið tengist yfirstandandi sýningu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur Fjarski og nánd. Íslensk samtímaljósmyndun. Sýningin er unnin í samstarfi við Félag íslenskra samtímaljósmyndara og í tengslum við efni bókarinnar Fegurðin er ekki skraut. Íslensk samtímaljósmyndun. Ritstjórar bókarinnar eru Sigrún Alba Sigurðardóttir og Æsa Sigurjónsdóttir sem er jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar. Brynja er einn af greinarhöfundum bókarinnar.

Brynja Sveinsdóttir er sýningarstjóri og starfandi forstöðumaður Gerðarsafns. Brynja lauk B.A. námi í listfræði og heimspeki við Háskóla Íslands 2010 og M.A. námi í hagnýtri menningarmiðlun við sama skóla 2011. Hún stundaði M.A. nám í sýningarstjórn við Stokkhólmsháskóla 2012-2014 og var í starfsnámi í Moderna Museet í Stokkhólmi undir lok námstímabilsins. Brynja hefur unnið að gerð sýninga frá útskrift, bæði sjálfstæðra sýningarverkefna og í starfi hjá listasöfnum. Hún starfaði sem aðstoðarmaður sýningarstjóra í Moderna Museet 2014; verkefnastjóri sýninga og safnfræðslu á Ljósmyndasafni Reykjavíkur 2015 og hefur starfað í Gerðarsafni frá 2016.

Föstudagsflétta er viðburðaröð Borgarsögusafns þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.

Ljósmynd: Falskar tennur, Bjargey Ólafsdóttur

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com