Borgarsogusafn12

Ljósmyndasafn Reykjavíkur: Hrafna Jóna sýnir borgarlandslagið í nýju ljósi

Nocturne er yfirskrift ljósmyndasýningar Hröfnu Jónu Ágústsdóttur sem opnuð hefur verið í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Verkið fangar ævintýraveröld næturinnar í hversdagslegu íslensku borgarlandslagi, lágstemmdan en margslunginn heim sem hreyfir við tilfinningum áhorfandans.  

„Ég er náttfari og hef alltaf verið, ég er á heimavelli í rökkrinu, sköpunarkraftur minn nærist á myrkrinu og ég lifna við. Nóttin er förunautur dagsins, hún breytir heiminum og gerir hann minni, kannski einfaldari. Allt er hljótt, fáir eru á ferli nema kettir og einstaka náttuglur. Myrkrið er mjúkt, myrkrið er spennandi, það er kalt, hlýtt eða óttablandið. Myrkrið breytir götunum í upplýsta árfarvegi sem renna fram hjá trjám sem varpa dulúðlegum skuggum inn í garðana. Myrkrið dregur fram og ýkir upp það sem við sjáum ekki með eigin augum, öll skúmaskotin, alla skuggana. Svo er einn og einn gluggi upplýstur, ég vil komast að leyndarmálunum sem þar búa að baki. Hver er vakandi? Af hverju? Hvað á sér stað á bak við gluggatjöldin?“ – Hrafna Jóna Ágústsdóttir

Hrafna Jóna Ágústsdóttir lauk diplómanámi í skapandi ljósmyndun í  Ljósmyndaskólanum árið 2020 og hefur unnið að list sinni síðan. Hún leitast við að tjá dekkri hliðar eigin hugsana og skynjunar í gegnum ljósmyndun og aðra listmiðla. 

Sýningin er opin mán-fös 12-17, laug 13-16  en lokað er á sunnudögum. Sýningunni lýkur 1. febrúar 2021.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com