12119023 10156178468410323 4032982634790315984 N

LÍTIL í Þjóðminjasafninu

Sýningin Lítil opnar á Torginu við Kaffitár á Þjóðminjasafninu, laugardaginn þann 24. október kl 14. Lítil er ástarjátning til smæðarinnar og fegurðarinnar sem býr í hinu litla. Að verkinu standa listamennirnir Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Ragnheiður Harpa Leifsdóttir. Kveikjan að verkinu er saga Ólafar eskimóa, dvergvaxins vesturfara sem heillaði Vesturheim með fölsuðum frásögnum af lífi sínu sem eskimói. Vala Höskuldsdóttir flytur lag við opnunina og boðið verður upp á léttar veigar. Sýningin mun standa yfir til 22. nóvember.

Ólöf smíðaði leiktjöld úr grænlenskum ís utan um lygasögu sína, búning úr ísbjarnarfeldi eskimóa, sveipaði hana dulúð sagna skáldaðra forfeðra og ljóma heimskautanna til að skapa sér framtíð þar sem hún hefði annars átt enga von. Söguheimur hennar var dulrænn og dáleiðandi en áhorfendur lýsa því að hafa hreinlega sogast inn í sögur hennar og vaknað, líkt og úr dái með kulda heimskautana í beinunum.

Viku síðar, í bókasal Safnahússins við Hverfisgötu laugardaginn 31. október kl 15:00 verður síðan fluttur gjörningur til heiðurs Ólöfu. Í gjörningnum takast listamennirnir á við eigin upplifun af smæð sinni gagnvart heiminum, hávöxnu fólki og náttúrunni, og flétta saman sögu Ólafar eskimóa við tónlist, ljóð og heimskautabirtu. Tónlistarfólk verksins eru þau Marteinn Sindri Jónsson og Vala Höskuldsdóttir, en Bjarni Jónsson sér um dramatúrgíu. Kvæði nöfnu Ólafar og samtíðarkonu, Ólafar frá Hlöðum, Lítil, er eins konar leiðarstef verksins.

Lítill máttur lyfti mér,

lítið gerði ég með hann.

Lítil kom og lítil er,

lítil fer ég héðan.

Verkið er fyrsta samstarfsverkefni listamannanna Ragnheiðar Hörpu og Sigrúnar Hlínar. Forvitni um heimskautin og ævisögur færði þær saman og nú takast þær á við brothætta og kraftmikla ævisögu Ólafar með orðum, tónum og fínofnu silki.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com