IMG 0470 3

Listasumar á Akureyri

Sóleyjar og óskalög

Hver viðburðurinn rekur annan á Listasumri á Akureyri. Húsfreyjan í Davíðshúsi, Valgerður H. Bjarnadóttir, stýrir dagskrá í þessu vinalega húsi kl. 16 á fimmtudaginn undir yfirskriftinni „Allar gáttir opnar: Hugsjónin í lífi og verkum Davíðs“. Frá kl. 15-17 á föstudagin býður Ós pressan til bókmenntaviðburðar á Amtsbókasafninu þar sem kynnast má nokkrum af skáldum af yngri kynslóðinni og skoða Orðlistasýninguna „We are Ós / Þetta er Us“. Fram koma Ewa Marcinek, Elena Ilkova og Anna Valdís Kro. Þá um kvöldið, klukkan 20, halda Eyþór Ingi Jónsson og Óskar Pétursson Óskalagatónleika í Akureyrarkirkju. Gestir geta valið lög af 300 laga lista og verða þau flutt undanbragðalaust af þeim tvímenningum. Mjög góður rómur hefur verið gerður af þessum tónleikum þeirra félaga.

Á laugardag kl. 14 opnar Helga Sigríður Valdemarsdóttir sýningu á nýjum málverkum í Mjólkurbúðinni. Sýningin ber titilinn „Sóley“ og um hana segir Helga Sigríður: „Áhugi minn á íslenskum lækningajurtum varð til þess að ég ákvað að nota þær sem viðfangsefni sýningar minnar og þá aðallega vegna litar og forms. Brennisóley varð að þessu sinni fyrir valinu vegna gula litarins. Guli litur sóleyarinnar skreytir græn tún landsins, fellur vel að björtum bláum sumarhimni og lífgar upp gráa rigningardaga. Þetta tignarlega en viðkvæma blóm lifir villt í íslenskri náttúru og birtist sem kraftmikið og litríkt blóm í verkum mínum“. Á sama tíma verður opnuð sýning í Kaktus á teikningum, málverkum og innsetningum sem átta krakkar í Skapandi sumarstörfum á vegum Akureyrarbæjar hafa unnið í sumar. Ólafsfirðingar halda áfram innrás sinni í Deiglunni þann sama dag kl. 15 með „Ólafsfjörður Impressions no 2“. Og það er nóg um að vera á hinum geysivinsæla tónleikastað Græna hattinum um helgina. Þar koma fram hljómsveitirnar Dúndurfréttir, Killer Queen og Skítamórall á þrennum tónleikum.

 

Mynd: Helga Sigríður opnar einkasýningu í Mjólkurbúðinni í Listagilinu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com